Bergþór Ólason þingmaður Miðflokksins gerði gríðarlega útgjaldaaukningu ríkissjóðs frá árinu 2019 að umtalsefni í Silfri Ríkisútvarpsins. Hann benti á að verði frumvarp að fjárlögunum fyrir 2023 að lögum munu ríkisútgjöld hafa aukist um 27,5%.

Egill Helgason spuði Bergþór út í grein hans í Morgunblaðinu á mánudag um útgjaldaaukningu ríkissjóðs á vakt Sjálfstæðisflokksins. Egill sagði að þetta væri afar hörð gagnrýni.

Bergþór sagði þá „Ætli það megi ekki segja að þetta hafi verið gamli Sjálfstæðismaðurinn í mér aðeins að reyna að minna menn á hvað menn stóðu fyrir einu sinni.“

Hann bætti svo við: „Það er nú þannig að heilsa Sjálfstæðisflokksins hefur í gegnum tíðina, í þau tæpu hundrað ár sem hann hefur verið við lýði, skipt miklu mál fyrir hag og velsæld þjóðarinnar. En einhvern veginn er allt sjálfstraust farið úr hópnum núna. Við sitjum hér uppi með vinstri stjórn, sem ég leyfi mér að fullyrða, þar sem útgjaldaaukningin er ólíkindum.“

Síðan rakti Bergþór útgjaldaaukninguna og sagði svo að „Sjálfstæðisflokkur með sjálfstraust léti aldrei bjóða sér þetta“.