Guðrún Hafsteinsdóttir nýkjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í morgun að ef Sjálfstæðisflokkurinn hafi fengið greitt frá ríkissjóði án þess að eiga rétt á því þá eigi að endurgreiða.
Sjálfstæðisflokkurinn fékk greiddar 166.941.000 kr. þann 25. janúar 2022 án þess að vera formlega skráður stjórnmálaflokkur. Þann 8. apríl sama ár skilaði flokkurinn tilkynningu til Skattsins og breytti skráningunni í stjórnmálaflokk.
Guðrún sagði opnum fundi hjá Sjálfstæðisfélaginu í Kópavogi að Sjálfstæðisflokkurinn ætti að endurgreiða styrkinn.
Ef flokkurinn endurgreiðir sömu fjárhæð og hann fékk í janúar 2022 þá er hún í dag 206.739.529, að teknu tilliti til verðlagsbreytinga.
Ef reiknaðir væru dráttavextir á styrkinn væri fjárhæðin nær 250 milljónum króna.
„Mín skoðun er einfaldlega þessi: Ef að Sjálfstæðisflokkurinn hefur fengið einhverja fjármuni frá ríkinu sem hann átti ekki rétt á þá finnst mér að okkur beri að skila þeim.“
Þetta sagði Guðrún í Morgunútvarpi Ríkisútvarpsins á Rás 2 í morgun. Þarna hefur hún dregið nokkuð í land frá fundinum í Kópavogi og frá því að hún kom í Spursmál á mbl.is fyrir ellefu dögum síðan.
Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra Íslands, sagði í morgun að ríkissjóður myndi taka því fagnandi ef Sjálfstæðisflokkurinn ákveði að endurgreiða ríkissjóði ríkisstyrkinn frá árinu 2022, það gæti þó reynst erfitt í framkvæmd.
„En kæmi slík beiðni fram myndi ég að sjálfsögðu taka henni fagnandi og reyna að leysa úr því máli,“ sagði Daði Már.