Endurgreiddur kostnaður alþingismanna vegna utanlandsferða á síðasta ári nam rúmlega 48 milljónum króna á verðlagi dagsins í dag. Kostnaðurinn dróst saman um 35% frá fyrra ári er þingmenn ferðuðust alls út fyrir landsteinana fyrir tæplega 74 milljónir króna. Fyrir utan heimsfaraldursárin 2020 og 2021 hefur kostnaðurinn ekki verið lægra frá árinu 2017, er hann nam tæplega 31 milljón á gengi dagsins í dag.
Skipt niður á flokka voru þingmenn Sjálfstæðisflokksins dýrastir í rekstri með rúmlega 2 milljónir króna í kostnað á hvern þingmann að meðaltali, þegar frá eru taldir ráðherrar. Næst komu Samfylkingin og Viðreisn með 1,2 milljónir að meðaltali á hvern þingmann og svo Framsókn með 1,1 milljón. Flokkur fólksins var ódýrastur í rekstri með um 667 þúsund krónur að meðaltali í erlendan ferðakostnað á hvern þingmann.
Sé þinginu skipt upp í stjórn og stjórnarandstöðu, sem voru við lýði meginþorra ársins 2024, nam erlendur ferðakostnaður á hvern stjórnarþingmann tæplega 1,4 milljónum króna en tæplega einni milljón á hvern stjórnarandstöðuþingmann.
Tíu með rúmlega helming og þriðjungur ekkert
Rúmlega þriðjungur þingheims ferðaðist ekkert út fyrir landsteinana á vegum Alþingis á síðasta ári, en hafa ber að hafa í huga að tólf þeirra gegndu ráðherraembætti á síðasta ári. Má því ætla að ráðuneytin hafi staðið straum af utanlandsferðum þeirra. Standa þá eftir tólf þingmenn sem ferðuðust ekkert utanlands á kostnað þingsins á síðasta ári. Á móti voru þeir tíu sem eyddu mestu í slíkar ferðir uppspretta rúmlega helmings alls slíks kostnaðar á síðasta ári, með nærri 2,5 milljónir í kostnað á mann að meðaltali.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.