Sjálfstæðisflokkurinn skilaði 25 milljóna króna hagnaði á síðasta ári, samanborið við hagnað upp á 65 milljónir árið áður. Þetta kemur fram í ársreikningi flokksins sem birtur hefur verið á vefsíðu Ríkisendurskoðunar.
Rekstrartekjur flokksins námu tæplega 329 milljónum króna í fyrra, en þar af voru ríflega 200 milljónir króna fjárframlög úr ríkissjóði og frá sveitarfélögum.
Tekjur Sjálfstæðisflokksins drógust saman um helming frá árinu 2022 þegar tekjurnar námu 651 milljón króna. Munurinn stafar einkum af því að flokkurinn seldi byggingarrétt fyrir 234 milljónir árið 2022.
Rekstrargjöld Sjálfstæðisflokksins drógust saman um 47% milli ára, eða úr 540 milljónum í tæplega 285 milljónir króna. Þar munar helst um ríflega 180 milljóna króna útgjalda vegna prófkjara og kosninga árið 2022, sem rekja má líklega til sveitarstjórnarkosninga. Laun og tengd gjöld flokksins námu 97 milljónum í fyrra.
Eignir Sjálfstæðisflokksins voru bókfærðar á 1.751 milljón króna í árslok 2023. Þar af var fasteign upp á 1,2 milljarða auk skammtímakrafa vegna lóðar og byggingarréttar upp á 230 milljónir og 216 milljónir í handbært fé. Eigið fé flokksins nam 1.387 milljónum.