Reykjavíkurborg og Faxaflóahafnir undirrituðu í dag viljayfirlýsingu hjá Sjávarklasanum á Grandagarði um uppbyggingu nýs nýsköpunar- og frumkvöðlaseturs undir heitinu 100% Húsið.
Á heimasíðu Reykjavíkurborgar segir að nafn setursins tengist því að 100% af hverjum veiddum fiski muni nýtast til verðmætasköpunar.
„Þetta snýst um menninguna okkar. Íslenski sjávarklasinn og frumkvöðlarnir hér eru límið á milli sjávarútvegs og nýsköpunar. Með tilkomu 100% hússins mun haftengd nýsköpun fá meiri pláss í borginni. Svona vilja borgir þróast,“ sagði Einar Þorsteinsson borgarstjóri.
Jafnframt segir að skoða eigi hvort húsakostur í eigu Faxaflóahafna henti fyrir starfsemina eða hvort reist verði nýtt hús við hlið núverandi aðstöðu Sjávarklasans að Grandagarði 16.
Gerð verður forsögn að nýju deiliskipulagi fyrir nýsköpunarhúsið með hliðsjón af þeim áherslum sem Reykjavíkurborg og Faxaflóahafnir hafa til metnaðarfullrar atvinnuuppbyggingar.