Sjávarsýn, fjárfestingarfélag Bjarna Ármannssonar, hefur náð samkomulagi um kaup á yfir 90% hlut í Köfunarþjónustunni ehf samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Kaupin eru háð samþykki Samkeppniseftirlitsins sem er með viðskiptin til meðferðar.

Köfunarþjónustan hefur áralanga reynslu á sviði köfunar og hefur yfir að ráða hópi reyndra atvinnukafara. Það veitir þjónustu varðandi rannsóknir á botni sjávar og stöðuvatna ásamt því að veita þjónustu með aðstoð á vali á flotbryggjum og aukahlutum. Auk þess sérhæfir félagið sig margskonar jaðarverkefnum.

Köfunarþjónustan hagnaðist um tæplega 184 milljónir króna árið 2023 samanborið við 198 milljónir árið áður. Velta félagsins nam 897 milljónum árið 2023. Eignir félagsins voru bókfærðar á 945 milljónir í árslok 2023 og eigið fé var um 751 milljón króna.

Félagið á rætur sínar að rekja til Köfunarþjónustu Árna Kópssonar sem var stofnuð árið 1998. Árið 2007 var félagið stækkað og varð Köfunarþjónustan ehf. þá til.

Eigendur Köfunarþjónustunnar eru Hlér ehf., félag Guðmundar Ásgeirssonar og fjölskyldu, með 77,3% hlut, Árni Kópsson með 12,2% hlut og Einar Kári Björgvinsson með 10,5% hlut samkvæmt nýjasta ársreikningi félagsins.

Stærstu hluthafar Köfunarþjónustunnar í árslok 2023

Hluthafi Eignarhlutur
Hlér ehf. 77,3%
Árni Kópsson 12,2%
Einar Kári Björgvinsson 10,5%