Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, segir ljóst að ríkisstjórnin stefni ekki að aukinni verðmætasköpun í íslenskum sjávarútvegi. „Íslenskur sjávarútvegur mun ekki líta eins út eftir eitt ár og hann gerir í dag.“ Því miður sé algengt að sjávarútvegurinn sem heild sé persónugerður í nokkrum útgerðarmönnum en um leið gleymist hve mikill fjöldi starfi við útgerð og tengda starfsemi.
Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra og Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra, kynntu í gær frumvarp sem felur í sér töluverða hækkun veiðigjalda, eða „leiðréttingu veiðigjalda“ eins og atvinnuvegaráðherra kallaði áformin.
Í sameiginlegri tilkynningu ráðuneytanna kom fram að við vinnu við endurskoðun á veiðigjöldum hafi niðurstaðan verið sú að núverandi aðferð endurspegli ekki raunverulegt aflaverðmæti nytjastofna. Ekki sé um að ræða breytingar á því fiskveiðistjórnunarkerfi sem verið hefur við lýði á Íslandsmiðum undanfarna áratugi, heldur þarfa leiðréttingu. Við gerð frumvarpsins hafi komið í ljós að fiskverð í reiknistofni hafi verið vanmetinn. Stærstur hluti viðskipta með veiddan fisk fari frá útgerð til vinnslu sem sé í eigu sömu aðila og því sé um bein viðskipti að ræða. Verðmyndun þessara viðskipta hafi ekki verið í samræmi við verðmyndun á mörkuðum.

„Til þess að bregðast við þessu ójafnvægi verður lögum um veiðigjöld breytt á þann veg að reiknistofn fyrir þorsk og ýsu mun miðast við verð á fiskmörkuðum innanlands. Fyrir uppsjávartegundirnar síld, kolmunna og makríl verður miðað við markaðsverð í Noregi yfir íslensk veiðitímabil,“ segir í tilkynningu.
Þorsteinn Már kveðst lítið skilja í orðum atvinnuvegaráðherra og fjármálaráðherra um meinta leiðréttingu veiðigjalda. „Að bera verð á uppsjávarfiski sem veiðist við strendur Íslands saman við verð í Noregi, þar sem rekstrarumhverfið er allt annað, er mjög sérstakt.“
Vinnslan færist að hluta úr landi
Þorsteinn Már bendir á að það krefjist gríðarlegrar fjárfestingar að stunda mjög tæknilega þróaðar veiðar og vinnslu. Það sé aftur á móti aldrei talað um það hjá ríkisstjórninni. „Vel útbúin skip eru mjög dýr sem og tæknivædd fiskvinnsla. Það gleymist oft að sjávarútvegurinn hefur fjárfest mjög mikið, öllum til til góðs, og þannig skapað verðmæt heilsársstörf. Afleiddar greinar sömuleiðis notið mjög góðs af þessum fjárfestingum.“
Þessi mikla hækkun veiðigjalda leiði óhjákvæmilega til þess að fjárfesting í greininni minnkar. Hann hafi að sama skapi ekki orðið var við að orðið fiskverkunarfólk sé til í orðabók ríkisstjórnarinnar. „Það er stefnt mjög ákveðið að því að færa vinnslunni úr landi, það er ljóst. Það er mjög stutt yfir hafið.“
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út í fyrramálið. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér og blaðið hér.