Landsvirkjun hefur samið við verktakafyrirtækið Ístak hf. um ýmis mannvirki fyrir Vaðölduver, þar sem fyrsta vindorkuver landsins rís. Sjö tilboð bárust í verkið.
Upphæð samningsins nemur rúmum 6,8 milljörðum króna. Reiknað er með að Ístak hefjist handa núna í maí og að verkinu ljúki sumarið 2027.
„Tilboð Ístaks var metið hagstæðast að teknu tilliti til samtölu fjárhæðar þess og tilboðs í kolefniskostnað,“ segir í tilkynningu Landsvirkjunar.
Undir samninginn fellur bygging á járnbentum og steinsteyptum undirstöðum fyrir 28 vindmyllur, sem og gerð kranastæða fyrir uppsetningu vindmyllanna, ásamt allri jarðvinnu.
Þá reisir Ístak um 1000 fermetra safnstöð á svæðinu, steinsteypta byggingu sem nýtt verður fyrir ýmsan búnað og verkstæði. Safnstöðin verður tengd við tengivirki Landsnets. Þá þarf að leggja töluvert af lögnum á svæðinu og grafa fyrir þeim, ganga frá vatnsveitu, fráveitu og malarplönum.
Fyrri hlutinn tilbúinn 2026
Landsvirkjun samdi í nóvember síðastliðnum við þýska fyrirtækið Enercon um kaup, uppsetningu og rekstur á vindmyllunum 28, sem reistar verða í Vaðölduveri. Fyrri helmingur þeirra verður gangsettur á næsta ári og seinni hlutinn árið 2027.
Fyrir skömmu buðu Landsvirkjun og Enercon til vinnustofu á Selfossi þar sem fulltrúar frá sveitarfélögum á Suðurlandi, Vegagerðinni, Samgöngustofu, lögreglunni, Landsneti, RARIK og nokkrum verkfræðistofum komu saman til að ræða allar hliðar skipulags og undirbúnings flutnings á vindmyllunum í ljósi þess hversu umfangsmiklir flutningarnir verða.