Tæplega 7.000 nýir hluthafar bætast í hóp eigenda Ölgerðarinnar Egill Skallagrímsson eftir hlutafjárútboð fyrirtækisins sem lauk á föstudaginn síðasta, að því er kemur fram í tilkynningu félagsins til Kauphallarinnar.
Rúmlega fjórföld eftirspurn var eftir hlutafé í fyrirtækinu þar sem almenningur keyptu hlutafé á genginu 8,9 krónur á hlut og stærri fjárfestar buðu 10,03 krónur á hvern hlut.
Sjá einnig: Fjárfestar þyrstir í Ölgerðina
Alls bárust áskriftir fyrir rúmlega 32 milljarða króna. Í sölubók A, sem náði til boða undir 20 milljónum króna, var rúmlega þreföld eftirspurn og fimmföld í tilboðsbók B fyrir boð yfir 20 milljónum. Seljendur samþykktu áskriftir fyrir 29,5% af hlutafé félagsins og var söluandvirði 7,9 milljarðar króna.
„Við erum í skýjunum með þessar frábæru móttökur sem færa stóran hluta fyrirtækisins í eigu þjóðarinnar. Við vonuðumst vissulega eftir góðum viðbrögðum, en þau fóru fram úr okkar björtustu vonum og sýna að viðskiptavinir og fjárfestar hafa trú á fyrirtækinu, vörum okkar, þjónustu og framtíðarsýn,“ segir Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar.
„Það er sérstaklega ánægjulegt að sjá hversu mikið af ungu fólki keypti hlut í fyrirtækinu, sem sýnir okkur svart á hvítu hversu stóran sess Ölgerðin skipar hjá þjóðinni,“ segir Andri Þór.