Danske Bank hefur ákveðið að opna á fjárfestingar í evrópskum vopna- og varnarmálafyrirtækjum, sem áður voru útilokuð frá fjárfestingum hjá sjóðum bankans.
Samkvæmt Børsen er um er að ræða stórt skref í stefnumótun bankans þar sem um 30 fyrirtæki verða fjarlægð af svokölluðum útilokunarlista Danske Bank á næstu mánuðum.
Þetta þýðir að sjóðstjórar bankans, meðal annars innan Danske Invest, munu nú geta fjárfest í breiðari hópi varnartengdra fyrirtækja en áður.
Í tilkynningu á vef bankans kemur fram að þessi breyting sé bein afleiðing aukinna pólitískra og samfélagslegra áherslna á öryggis- og varnarmál í kjölfar alþjóðlegrar óvissu og stríðsátaka.
„Við höfum séð verulega aukna áherslu á nauðsyn sterkara varnarkerfis í Evrópu, og bæði framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og dönsk stjórnvöld hafa lagt áherslu á miklar varnarmálafjárfestingar á næstu árum,“ segir Erik Eliasson, yfirmaður sjálfbærra fjárfestinga hjá Danske Bank, í yfirlýsingu.
Einnig segir Eliasson að viðhorf fjárfesta hafi breyst töluvert.

„Við höfum orðið vör við markverða breytingu í almennri afstöðu viðskiptavina okkar til varnariðnaðarins. Hún hefur orðið mun minna íhaldssöm og endurspeglar breytta heimsmynd.“
Stríðið í Úkraínu, auk vaxandi efasemda um áreiðanleika transatlantísks öryggissamstarfs undir forystu NATO, hafa valdið auknum áhuga fjárfesta á vopnaframleiðendum eins og SAAB og Rheinmetall.
Þessi þróun hefur verið svo hröð að Danske Bank, ásamt öðrum fjármálastofnunum, hefur jafnvel varað við því að of mikil bjartsýni og væntingar kunni að leiða til uppsprengds verðs á slíkum hlutabréfum.
Í ljósi þessa hefur Danske Bank tvöfaldað fjárfestingar sínar í varnarmálageiranum á síðustu tveimur árum.
Samkvæmt Thomas Otbo, fjárfestingarstjóra hjá Danske Bank Asset Management, hafa eignir í fyrirtækjum sem framleiða vopn og önnur hergögn aukist verulega.
„Á síðustu tveimur árum höfum við meira en tvöfaldað heildareignir okkar í fyrirtækjum með tekjur af vopnum og hergögnum. Varnariðnaðurinn hefur verið sterkt fjárfestingaþema í hlutabréfastrategíum okkar og við bjóðum einnig upp á sérsniðnar lausnir fyrir fagfjárfesta sem hafa áhuga á varnargeiranum.“
Með 900 milljarða danskra króna í stýringu
Samanlagt hafa Danske Bank og lífeyrissjóðurinn Danica í dag um 900 milljarða danskra króna í stýringu. Af þeirri upphæð eru um 5-7 milljarðar danskra króna í vopna- og varnarmálafyrirtækjum. Nú fá þó sjóðstjórar einnig að fjárfesta.
Mun þetta vera í annað sinn á skömmum tíma sem bankinn lætur af ströngum fjárfestingareglum sínum.
Á síðasta ári ákvað Danske Bank að aflétta 11 ára gömlu banni gegn fjárfestingum í fyrirtækjum sem taka þátt í þróun og framleiðslu kjarnorkuvopna.
Meðal fyrirtækja sem þar með urðu leyfileg í eignasöfnum bankans voru bandaríska tæknifyrirtækið Honeywell International og breska verkfræðifyrirtækið Rolls-Royce, sem bæði gegna lykilhlutverki í kjarnorkuvopnabúnaði ríkja sinna.
Eliasson sagði þá að sú breyting hafi verið nauðsynleg miðað við nýja stöðu heimsins.
„Hin aukna ógn frá Rússlandi hefur knúið okkur til að endurmeta nálgun okkar á varnarmálageirann og laga stefnu okkar að þeirri samfélagsmynd sem við lifum í. Pólitískt og samfélagslega hefur áhersla á sterkt varnarbandalag í Evrópu og meðal bandamanna okkar aukist verulega,“ sagði Eliasson í fyrra.
Í lok yfirlýsingar bankans er jafnframt tekið fram að vegna regluverks á borð við MAR (Market Abuse Regulation) geti hann ekki upplýst nákvæmlega hvaða fyrirtæki verði fjarlægð af svartalistanum.