Sjóð­stjórar breskra fjár­mála­fyrir­tækja eru byrjaðir að kvarta sáran yfir stöðunni í Kaup­höllinni í Lundúnum eftir fjölda af­skráninga.

Að þeirra mati eru val­mögu­leikarnir í Kaup­höllinni af skornum skammti en alls bárust yfir­töku­til­boð í þrjá­tíu skráð fé­lög á árinu og var meðal­verð um 1 milljarður punda.

Í fyrra bárust 27 yfir­töku­til­boð á fyrsta árs­helmingi og var meðal­verð um 443 milljónir punda.

Þrátt fyrir að yfir­töku­til­boðin þrýsti gengi fé­laganna upp til skemmri tíma litið þá segja sjóð­stjórarnir að þetta sé ekki já­kvæð þróun til lengdar þar sem skráningum og frumút­boðum hefur fækkað veru­lega í Lundúnum.

„Bret­land á á hættu á að verða mjög þröngur markaður,“ segir David Cumming, yfir­maður verð­bréfa­við­skipta hjá Newton, í sam­tali við Financial Times.

Cumming, sem hefur verið í verð­bréfa­við­skiptum í meira en fjöru­tíu ár í Lundúnum, segir að allt bendi til þess að þróunin muni halda á­fram.

„Það þarf að gera meira til að hvetja til fjár­festinga í breskum hluta­bréfum til að koma í veg fyrir að verð­bréfa­markaðurinn veslist upp,“ segir Cumming.

Margfeldið mun hærra í Bandaríkjunum

Rig­ht­move, sem rekur einn stærsta fast­eigna­sölu­vef Bret­lands og er hluti af FTSE 100, barst yfir­töku­til­boð frá REA, sem er í eigu Rupert Mur­doch, í mánuðinum. Rig­ht­move hafnaði til­boðinu.

Meðal­stór fyrir­tæki í FTSE 250 hafa einnig verið að fá yfir­töku­til­boð en banda­rísk fjár­festinga­fé­lög keyptu Tyman, sem fram­leiðir glugga og hurðir, og fjar­skipta­fé­lagið Spi­rent á árinu.

Í síðustu viku sam­þykkti námu­fé­lagið Centami 1,9 milljarða punda yfir­töku­til­boð banda­ríska fé­lagsins AngloGold Ashanti og fækkaði þannig málm­leitar­fé­lögum í kaup­höllinni í Lundúnum um eitt.

Er­lendir fjár­festar eru að sjá hag sinn í því að kaupa bresk fé­lög þar sem gengi þeirra er mun lægra oft en hjá sam­bæri­legum fé­lögum í t.d. Banda­ríkjunum.

Marg­feldi markaðs­virðis og hagnaðar (V/H hlut­fall) hjá fé­lögum í FTSE 100 er 15,1 en stendur í 26,8 hjá fé­lögum í S&P 500.