Í desember 2024 var tilkynnt um kaup AF2, framtakssjóðs í rekstri Alfa Framtaks, á ráðandi hlut í Lyf og heilsu. Í ársreikningi Lyfs og heilsu sem var birtur í dag kemur fram að samkomulagið hafi gert ráð fyrir að sjóðurinn myndi kaupa 70% hlut í félaginu.
Í skýrslu stjórnar í ársreikningnum sem var undirrituð í byrjun mars, nokkrum vikum áður en Samkeppniseftirlitið heimilaði viðskiptin, segir að endanleg skiptihlutföll verði ljós þegar viðskiptin klárist.
Framseldu dótturfélög að andvirði 3 milljarðar
Í desember 2024 var tilkynnt um kaup AF2, framtakssjóðs í rekstri Alfa Framtaks, á ráðandi hlut í Lyf og heilsu. Samkomulagið fól í sér að AF2 eignaðist ráðandi hlut í LHH25 ehf., nýju móðurfélagi Lyfs og heilsu.
Sem hluti af endurskipulagningunni seldi Lyf og heilsa eignarhluti sína í öllum dóttur og hlutdeildarfélögum, ef frá er talið dótturfélagið Læknastöðin Sogavegi, til fyrrverandi móðurfélagsins Fastar ehf., sem er í eigu Jóns Hilmars Karlssonar. Einnig voru allar kröfur við tengda aðila seldar til Fastar ásamt því að skuldir við tengda aðila voru framseldar einnig.
Meðal umræddra félaga sem voru framseld til Fastar eru Faxar ehf., Kambar byggingarvörur og Hljóðfærahúsið ehf. Lyf og heilsa seldi dóttur- og hlutdeildarfélög fyrir tæplega 3,2 milljarða króna í fyrra.
Lyf og Heilsa var áður í endanlegri eigu Toska ehf., félagi Jóns Hilmars sem er sonur Karls Wernerssonar. Gera má ráð fyrir að Toska eigi ríflega 30% hlut í nýja móðurfélaginu LHH25 ehf.
Hagnast um 640 milljónir króna
Lyf og heilsa hagnaðist um 640 milljónir króna á síðasta ári, samanborið við 648 milljónir króna árið 2023.
Rekstrartekjur félagsins jukust um 10% milli ára og námu 13,7 milljörðum króna, samanborið við 12,5 milljarða árið áður. Rekstrarhagnaður (EBIT) jókst um 3,2% milli ára og nam 652 milljónum. Ársverk voru 180 samanborið við 175 árið áður.
„Þróun í rekstri félagsins hefur verið mjög góð og fjárhagsstaða þess er sterk. Samkeppni og opinberar kröfur hafa aukist og félagið mun bregðast við þeim áskorunum eins og kostur er,“ segir í skýrslu stjórnar.
Lyf og heilsa rekur 29 aptótek. Flest þeirra, eða 23, eru rekin undir merkjum Apótekarans en fjögur eru rekin undir merkjum Lyf og heilsu. Að auki rekur fyrirtækið Garðsapótek og Apótek Hafnarfjarðar. Til viðbótar rekur Lyf og heilsa tvær gleraugnaverslanir undir vörumerkinu Augastaður, sem og lyfjaskömmtun og framleiðsludeild Gamla apóteksins.
Eignir Lyfs og heilsu námu 9,2 milljörðum króna í árslok 2024 og eigið fé var tæplega 4,3 milljarðar króna.