Nýstofnaður fjárfestingasjóður eignastýringarfélagsins Nordic Capital safnaði um tveimur milljörðum evra í fyrstu fjármögnunarlotu sem samsvarar um 289 milljörðum króna á gengi dagsins.
Samkvæmt danska viðskiptamiðlinum Børsen var stefnt á 1,4 milljarð evra en vegna umframeftirspurnar var ákveðið að stækka sjóðinn.
„Þetta hefur verið virkilega vel heppnuð fjármögnunarlota og við erum ánægðir með að hafa náð okkar markmiðum á þremur og hálfum mánuði,“ segir Joakim Lundvall meðeigandi í Nordic Capital og sjóðstjóri.
Fjárfestingasjóðurinn mun heita Evolution II og hefur það markmið að fjárfesta í meðalstórum fyrirtækjum á Norðurlöndunum sem er metinn á 100 til 500 milljónir evra, eða um 14,5 til 72,5 milljarða íslenskra króna.
Eignastýringarfélagið Nordic Capital á rætur að rekja til Svíþjóðar en hefur verið að hasla sér völl í Danmörku á síðustu árum.
Félagið á í dag stóra eignarhluti í dönsku fyrirtækjunum Lagkagehuset, Leo Pharma og Conscia.
Að sögn Lundvall er Danmörk einn af lykilmörkuðum sem sjóðurinn mun fjárfesta í en það verður einnig horft út fyrir landsteinana.
Samkvæmt Børsen hefur fjárfestingasjóðum gengið illa að safna fé frá fjárfestum upp á síðkastið og sýnir þessi fjármögnunarlota mögulega að áhugi fjárfesta sé að kvikna að nýju.