Ný­stofnaður fjár­festinga­sjóður eignastýringarfélagsins Nor­dic Capi­tal safnaði um tveimur milljörðum evra í fyrstu fjár­mögnunar­lotu sem sam­svarar um 289 milljörðum króna á gengi dagsins.

Sam­kvæmt danska við­skipta­miðlinum Børsen var stefnt á 1,4 milljarð evra en vegna um­fram­eftir­spurnar var ákveðið að stækka sjóðinn.

„Þetta hefur verið virki­lega vel heppnuð fjár­mögnunar­lota og við erum ánægðir með að hafa náð okkar mark­miðum á þremur og hálfum mánuði,“ segir Joa­kim Lund­vall með­eig­andi í Nor­dic Capi­tal og sjóðstjóri.

Fjár­festinga­sjóðurinn mun heita Evolution II og hefur það mark­mið að fjár­festa í meðal­stórum fyrir­tækjum á Norður­löndunum sem er metinn á 100 til 500 milljónir evra, eða um 14,5 til 72,5 milljarða ís­lenskra króna.

Eignastýringarfélagið Nor­dic Capi­tal á rætur að rekja til Svíþjóðar en hefur verið að hasla sér völl í Dan­mörku á síðustu árum.

Félagið á í dag stóra eignar­hluti í dönsku fyrir­tækjunum Lag­ka­gehuset, Leo Pharma og Conscia.

Að sögn Lund­vall er Dan­mörk einn af lykilmörkuðum sem sjóðurinn mun fjár­festa í en það verður einnig horft út fyrir land­steinana.

Sam­kvæmt Børsen hefur fjár­festinga­sjóðum gengið illa að safna fé frá fjár­festum upp á síðkastið og sýnir þessi fjár­mögnunar­lota mögu­lega að áhugi fjár­festa sé að kvikna að nýju.