Alls runnu um 3,5 milljónir dollara, um hálfur milljarður króna að núvirði, úr dánarbúi heimskonunnar Sonju de Zorrilla í styrktarsjóð í hennar nafni, Sonja Foundation. Takmarkaðar upplýsingar hafa verið veittar um fjármál sjóðsins frá andláti Sonju árið 2002 þrátt fyrir fjölda tilrauna fjölmiðla síðustu tvo áratugi.

Viðskiptablaðið hefur undir höndum ársreikninga Sonja Foundation og samþykktir sjóðsins, sem er með starfsstöðvar í Greenwich í Connecticut í Bandaríkjunum. Í ársreikningunum má finna yfirlit yfir allar úthlutanir úr sjóðnum sem hafa numið nokkrum tugum ár hvert og verða ársreikningarnir birtir á vb.is.

Samkvæmt samþykktum sjóðsins hefur honum verið ætlað, „að styðja við heilsu og menntun barna á Íslandi og í Bandaríkjunum," í samræmi við erfðaskrá Sonju. Guðmundur A. Birgisson, kenndur við Núpa og frændi Sonju, og bandaríski lögmaðurinn John J. Ferguson voru skipaðir sjóðstjórar yfir sjóðnum.

Sonja átti litríka ævi, en hún bjó lengst af í glæsiíbúð á Park Avenue við Manhattan, giftist argentíska ólympíuverðlaunahafanum Alberto de Zorrilla, stundaði verðbréfaviðskipti á Wall Street og safnaði listaverkum.

Margt hefur verið á huldu um raunveruleg auðæfi Sonju en skömmu fyrir andlátið var hún sögð ríkasta kona landsins. Auður hennar var meðal annars talinn byggja verðbréfasafni, listaverkasafni og fasteignum hér á landi og í Bandaríkjunum. Á meðal verka sem seld voru af dánarbúi Sonju de Zorrilla hjá uppboðshúsinu Christie’s á árunum 2004-5 voru verk eftir listamennina Francis Bacon, Antoni Tàpies, David Hockney, Marisol, Theodoros Stamos og André Lanskoy. Samkvæmt John Ferguson, lögfræðingi Sonju og öðrum sjóðstjóra sjóðsins fékkst tæplega milljón dollara fyrir verkin á uppboðum Christie’s.

Nánar verður fjallað um hvað varð um auðæfi Sonju og styrktarsjóðinn Sonja Foundation í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Fjallað um tíðrædd þolmörk Landspítalans, möguleika hans til að skala upp gjörgæslu og áhrif slíkrar uppskölunar.
  • Framkvæmdastjóri Risk vonast til að samningur við Bandarísku sykursýkisamtökin opni dyrnar á bandaríska markaðinn.
  • Sagt er frá stefnubreytingu hjá hugbúnaðarsprotanum GRID.
  • Fjallað er um gengishækkun íslensku krónunnar.
  • Rætt er við Sturlu Gunnar Eðvarðsson, nýjan framkvæmdastjóra viðskiptaþróunar hjá Eik fasteignafélagi.
  • Fjallað er um nýju sendingaþjónustuna Sending.is sem er að víkka út starfsemi sína.
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað sem og þá fjallar Týr um fjármálaráðherra og faraldurinn.
  • Óðinn fjallar um spádóma Tannlæknablaðsins og ástæður skorts á starfsfólki í heilbrigðisgeiranum.