Stefnir og norska félagið Fredensborg AS, eigandi Heimstaden ehf., hafa komist að samkomulagi um möguleg kaup nýs sjóðs á vegum Stefnis á öllu hlutafé í Heimstaden á Íslandi, að því er kemur fram í fréttatilkynningu. Heimstaden ehf. á um 1.600 íbúðir hér á landi sem eru allar í langtímaleigu.

Kaupin eru meðal annars háð áreiðanleikakönnun og samþykki endanlegra kaupenda, sem verða eingöngu innlendir lífeyrissjóðir.

„Kaupendur hyggjast fylgja þeirri stefnu sem fyrri eigendur hafa markað og halda þeim innviðum sem byggðir hafa verið upp. Ekki er gert ráð fyrir að kaupin hafi bein áhrif á leigutaka né starfsfólk félagsins,“ segir í tilkynningunni.

Markmiðið með kaupunum er sagt vera að reka sjálfbært leigufélag sem hafi burði til að styðja við nauðsynlega íbúðauppbyggingu á næstu árum og með því styrkja leigumarkaðinn hér á landi.

„Sérstakur sjóður eða félag í rekstri Stefnis mun fara með eignarhald félagsins og fjármagna starfsemina með eiginfjárframlagi og lánsfjármögnun. Félaginu yrði skipuð sjálfstæð stjórn sem fær það mikilvæga verkefni að byggja enn frekar ofan á þann góða árangur sem hefur náðst og þannig skapa raunhæfan langtímavalkost á íslenskum húsnæðismarkaði.“

Viðskiptablaðið greindi frá því í síðustu viku að sænska leigufélagið Heimstaden AB væri að selja Heimstaden ehf., sem hét áður Heimavellir, til Fredensborg AS fyrir hátt í 30 milljarða króna. Fredensborg, sem er aðaleigandi Heimstaden AB með 70% hlut, keypti Heimavelli og afskráði leigufélagið úr íslensku Kauphöllinni árið 2020.

Arctica Finance er ráðgjafi Fredensborg AS við söluna á Heimstaden ehf. til sjóðs Stefnis.