SÍA IV, framtakssjóður í rekstri Stefnis, hefur samið um kaup á nýju hlutafé í mjólkurvinnslunni Örnu á Bolungarvík. Greint er frá þessu í fréttatilkynningu.

„Hlutafjáraukningin styður við frekari vöxt félagsins og tryggir að félagið haldi áfram að vera brautryðjandi í vöruþróun og nýsköpun í framleiðslu á mjólkur- og hafravörum.“

Nokkir hluthafar selja

Samhliða hlutafjáraukningunni hafa ákveðnir hluthafar ákveðið að selja sjóðnum hluti sína í félaginu, en Hálfdán Óskarsson, framkvæmdastjóri og stofnandi Örnu, verður áfram meðal stærstu hluthafa félagsins.

„Við hjá Örnu erum gríðarlega ánægð með að fá Stefni inn sem kjölfestufjárfesti í félaginu á þessum tímapunkti og væntum við mikils af samstarfinu. Þekking og reynsla Stefnis mun styrkja félagið og gera okkur einstaklega vel í stakk búin til að grípa þau fjölmörgu tækifæri sem eru á markaðnum og taka þannig næsta skref í vexti og uppbyggingu félagsins,“ segir Hálfdán Óskarsson, framkvæmdastjóri Örnu.

„Frá upphafi höfum við lagt mikinn metnað í að framleiða hollar, bragðgóðar, ferskar og umhverfisvænar vörur. Við erum full tilhlökkunar fyrir komandi tímum og hlökkum til að kynna viðskiptavini okkar fyrir nýjum og spennandi vörum.“

„Í Bolungarvík framleiðir Arna framúrskarandi mjólkurvörur og hefur byggt á þeim vörumerki sem vel flestir landsmenn þekkja. Við erum því virkilega spennt fyrir því að fá að taka þátt í áframhaldandi uppbyggingu og vexti Örnu með starfsmönnum félagsins,“ segir Eiríkur Ársælsson, sjóðstjóri sérhæfðra fjárfestinga hjá Stefni.

Deloitte hafði umsjón með söluferlinu og var ráðgjafi Örnu í viðskiptunum.

Rekstrartekjur Örnu námu ríflega 1,9 milljörðum króna árið 2023 sem samsvarar um 20% vexti frá fyrra ári. Arna hagnaðist um tæplega 36 milljónir króna á síðasta ári.

Jón von Tetzchner hefur verið aðaleigandi Örnu en hann átti 64% hlut í lok síðasta árs. Hálfdan Óskarsson, sem stofnaði Örnu árið 2013, var næst stærsti hluthafinn með 16% hlut í árslok 2023.

Arna er mjólkurvinnsla með aðsetur í Bolungarvík á Vestfjörðum sem sérhæfir sig í framleiðslu á mjólkurvörum án laktósa. Mjólkurvörur Örnu eru framleiddar úr próteinbættri íslenskri kúamjólk sem kemur frá bændum á Vestfjörðum.

Nýlega hóf félagið framleiðslu og sölu á hafravörum undir vörumerkinu Vera Örnudóttir en þær vörur eru að fullu vegan.