Matvælastofnun segist ekki geta afgreitt rekstrarleyfisumsókn um sjókvíaeldi í Seyðisfirði fyrr en Vegagerðin hefur lokið áhættumati siglingaleiða.

Fiskifréttir greina frá þessu og segja að skoðanir heimamanna séu afar skiptar.

Fiskeldi Austfjarða sótti um rekstrarleyfi fyrir tíu þúsund tonna sjókvíaeldi í Seyðisfirði og óskaði heimastjórn eftir því að niðurstaða fengist vegna afgreiðslu á rekstrarleyfisumsókn hjá Matvælastofnun.

Sveitastjórnin samþykkti svo þann 18. október að þess yrði „farið á leit við Matvælastofnun að niðurstaða fáist við afgreiðslu rekstrarleyfisumsóknar vegna fyrirhugaðs laxeldis í Seyðisfirði“.

Með þessu er ekki tekin afstaða með eða á móti fiskeldi eða lögð áhersla á einstakar atvinnugreinar umfram aðrar.

Í gær barst svar frá Matvælastofnun sem segir að tvær aðrar umsóknir séu á undan í röðinni og getur MAST ekki tekið umsóknir um rekstrarleyfi fram fyrir þá röð sem stjórnsýslan setur stofnuninni.

„Matvælastofnun getur ekki tekið rekstrarleyfi um fiskeldi í Seyðisfirði til umfjöllunar fyrr en áhættumati siglingaleiða er lokið en sú vinna er á höndum Vegagerðarinnar,“ segir í svarinu til Múlaþings.