Félagsmenn Sjómannasambands Íslands (SSÍ) samþykktu nýjan kjarasamning sambandsins við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS).
Kjarasamningurinn, sem var undirritaður 6. febrúar sl., var samþykktur með 62,84% greiddra atkvæða en 37,17% greiddu atkvæði á móti. Kjörsókn var 53,62%.
„Það er alltaf ánægjulegt þegar kjarasamningur er samþykktur. Sérstaklega núna eftir allt það skítkast og óhróður sem beindist að forystumönnum Sjómannasambandsins,“ segir Valmundur Valmundsson, formaður Sjómannasambandsins.
„Það sýnir sig best að við sem höldum uppi málefnalegri og siðaðri umræðu höfðum vinninginn. Fyrir það ber að þakka þeim sem komu með okkur í vegferðina.“
Samningar á milli Sjómannasambandsins og SFS hafa verið lausir frá árinu 2019 en kjarasamningur, sem átti að gilda til 10 ára, var felldur í atkvæðagreiðslu sjómanna á síðasta ári. Sjómenn hafa nú samþykkt nýjan kjarasamning sem er helst frábrugðinn frá þeim sem hafnað var í fyrra að því leytinu að binditími hans er 5 ár en ekki 10 ár.
Sjómenn munu fá 400.000 króna eingreiðslu frá útgerðarfyrirtækjum þar sem samningurinn var samþykktur.
Formaður SSÍ feginn eftir erfiða fæðingu
Valmundur lýsir kjarasamningnum, sem náðist eftir erfiða fæðingu, sem tímamótasamningi fyrir sjómenn. Samningurinn byggi í grunninn á þeim samningi sem felldur var í fyrra en að hans sögn var bætt við og lagfært það sem sjómenn gagnrýndu hvað mest í fyrri samningnum.
„Ég er stoltur af mínum félagsmönnum innan Sjómannasambandsins að samþykkja samninginn. Taka ekki mark á öllum þeim óhróðri og rangfærslum sem steypt var yfir sjómenn í aðdraganda atkvæðagreiðslunnar og meðan á henni stóð. Eins og ég hef áður sagt opinberlega, kunna sjómenn að lesa sér til gagns og greina kjarnann frá hisminu. Við unnum að kynningu samningsins á málefnalegan og faglegan hátt án upphrópana og útúrsnúninga. Það er að skila sér núna með samþykkt þessa nýja samnings,“ segir Valmundur.
„Úrtöluraddir munu halda áfram að hljóma um innihald samningsins. Hlustum ekki á hælbítana, höldum stoltir áfram og vinnum eftir góðum kjarasamningi næstu árin.“

SFS vonast eftir fleiri samningum
Í tilkynningu SFS segir að megininntak samningsins lúti að betri kjörum og réttindum til framtíðar, auk hnitmiðaðra aðgerða til að auka traust við skipti á verðmætum úr sjó. Greiðslur í lífeyrissjóð og kauptrygging hækka í samræmi við samninga á almennum vinnumarkaði, auk þess sem áhersla er lögð á aukið gagnsæi og upplýsingagjöf vegna fiskverðsmála. Þá verður desemberuppbót innleidd á samningstíma.
Vonir SFS standa til að þess að samningar takist einnig við Sjómanna- og vélstjórafélag Grindavíkur og VM - Félag vélstjóra og málmtæknimanna.