Stjórnendur sjónvarpsstöðvarinnar ÍNN hafa ákveðið að leggja stöðina niður og verður útsendingum hennar hætt í kvöld að því er fram kemur á facebook síðu stöðvarinnar. Stöðin var lengst af rekin af Yngva Hrafni Jónssyni, en eins og Viðskiptablaðið greindi frá fyrir rúmu ári síðan keypti Pressan stöðina.
ÍNN hefur glímt við mikinn rekstrar- og skuldavanda um árabil og þarfnast ækjabúnaður stöðvarinnar endurnýjunar að því er segir í tilkynningunni þar sem segir jafnframt að ljóst sé að stöðin verður ekki rekin áfram nema nýtt fjármagn komi til.
Hlutafé í ÍNN var meðal þess sem Frjáls fjölmiðlun keypti af Pressunni í byrjun september, eins og Viðskiptablaðið greindi þá frá og er niðurstaðan nú sögð vera sameiginleg milli stjórnar Pressunnar og eiganda Frjálsrar fjölmiðlunar, en bæði félögin hafa lagt ÍNN til fjármagn undanfarin misseri.