Ísbúðin Skalli hefur lengi vel verið Íslendingum kunnugt nafn en saga fyrirtækisins hófst árið 1971 þegar lítil ísbúð opnaði við Lækjargötu í miðbæ Reykjavíkur. Á þeim árum var mikil umferð inn á staðinn frá öllum hornum borgarinnar.
Eftir því sem árin liðu þróaðist starfsemin hægt og rólega og árið 1980 var verslunin farin að bjóða upp á ýmsa rétti sem fólk gat tekið með sér.
Í dag er staðurinn orðinn eðal bistro sem býður meðal annars upp á hrossafillet, kjötsúpur og ciabatta-samlokur. Hann er þó enn í eigu sömu fjölskyldunnar sem segir að þrátt fyrir miklar breytingar undanfarna fimm áratugi þá sé hugsunin á bak við hvert handtak enn það sama.
Hrafn Jónsson, einn af þremur eigendum Skalla Bistro, segir í samtali við Viðskiptablaðið að síðasta breytingin hafi átt sér stað hægt og rólega en stökkið hafi komið fyrir tveimur árum síðan.
„Við fengum allt í einu þá hugmynd að útbúa hamborgara sem væri án sykurs og allra aukaefna. Hugsunin var að geta fengið sér hamborgara án þess að borga fyrir það með heilsunni.“
Eftir að sá bolti fór að rúlla fóru eigendur að gera ýmsar tilraunir með deig. Þeir pöntuðu sér bækur af Amazon og lágu yfir alls kyns YouTube-myndböndum og fyrir rest tókst þeim að gera úrvalsbrauð.
„Viðbrögðin voru strax góð og þetta kveikti dellu í okkur að skapa meiri sérstöðu og bjóða upp á hluti sem ekki væri hægt að fá annars staðar. Svo er það bara þannig að þegar maður gerir hlutina sjálfur frá grunni þá líður manni betur með það.“
Hrafn segir að í heimi þar sem bæði matur og menning sé gjarnan fjöldaframleidd þá sé ákveðinn vilji til að leita aftur í grunninn. Vatnsendahverfið, þar sem Skalli Bistro er staðsett, hefur einnig stækkað töluvert og hefur sú þróun skilað sér í formi mikils gestafjölda.
„Það er náttúrulega mikilvægt að staðna ekki, en ef þú ætlar að vinna í þessu þá er líka mikilvægt að hafa gaman í vinnunni. Þú gerir þetta ekki til þess að verða milljónamæringur og það er á tæru hjá okkur að læra alltaf eitthvað nýtt og taka þetta skrefinu lengra.“