Efnalaugin Björg fagnar 70 ára starfsafmæli, en fyrirtækið hefur ávallt verið í eigu sömu fjölskyldunnar og tók þriðja kynslóð fjölskyldunnar við rekstri félagsins fyrir um fimm árum síðan. Upphaf Efnalaugarinnar má rekja til þess þegar Magnús Kristinsson, fæddur árið 1923, keypti hana árið 1953.

„Afi minn kaupir efnalaugina sem var þá staðsett á Sólvallagötu og flytur starfsemina yfir á Háaleitisbrautina þrettán árum síðar. Tengdasonur hans, og pabbi minn, kemur inn í reksturinn árið 1984 auk dóttur afa míns. Árið 1987 opnar efnalaugin Efnalaugina Björg í Mjódd sem frændfólk mitt rekur og þar er einmitt þriðji ættliður líka tekinn við. Rekstrareiningarnar eru reknar í sitt hvoru lagi en áherslan er ávallt á persónulega þjónustu og vönduð vinnubrögð.“ segir Kristinn Kristinsson, framkvæmdastjóri Efnalaugarinnar Bjargar við Háaleitisbraut.

Félagið velti 113 milljónum króna á árinu 2021 og 85 milljónum árið áður. Kristinn segir fyrirtækið hafa unnið mikinn varnarsigur í faraldrinum. „Við náðum að halda okkar góða og hæfa starfsfólki og engum var sagt upp í faraldrinum. Því má segja að við náðum ákveðnum varnarsigri og vorum tilbúin þegar samfélagið fór aftur í gang.“

Hann skynjar mikla vitundarvakningu þegar kemur að umhverfismálum. „Fólk vill minnka plastnotkun og endurnýta meira. Við byrjuðum nýlega að biðla til viðskiptavina okkar að skila herðatrjánum til baka til okkar, en í dag erum við að fá að meðaltali 3-4 kíló af herðatrjám á dag, 6 daga vikunnar. Það má segja að við séum að fara aftur í tímann, þegar Efnalaugin opnaði fyrir 70 árum, en á þeim tíma var engu hent og allt nýtt aftur.“

Tækifæri til nútímavæðingar

Kristinn segir mikilvægt að leita leiða til að veita betri þjónustu fyrir viðskiptavini félagsins. „Ég sé gullið tækifæri í því að nútímavæða fyrirtækið. Það felst í því að tölvuvæða og breyta verkferlum og þannig bæta upplifun viðskiptavinarins.“

Hann segir kúnnann upplýstari í dag en áður. „Fólk á mun auðveldara með að leita sér þekkingar og bera þjónustu mismunandi fyrirtækja saman. Við þurfum því sífellt að vera vakandi og þróast með væntingum viðskiptavinarins.“

Nánar er fjallað um Efnalaugina Björg í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.