Sjóvá hagnaðist um 60 milljónir króna á öðrum ársfjórðungi samanborið við 434 milljóna tap á sama tímabili í fyrra. Afkoma tryggingafélagsins á fyrri árshelmingi var hins vegar neikvæð um 479 milljónir króna. Sjóvá birti uppgjör fyrir annan ársfjórðung eftir lokun Kauphallarinnar í dag.
Hagnaður af vátryggingasamningum fyrir skatta nam 690 milljónum króna á öðrum ársfjórðungi samanborið við 150 milljóna tap á síðasta ári. Samsett hlutfall var 92,1%.
Hins vegar var tap af fjárfestingarstarfsemi fyrir skatta að fjárhæð 439 milljónir króna, samanborið við 317 milljóna tap á öðrum fjórðungi 2024. Ávöxtun fjárfestingareigna í stýringu var neikvæð um 0,1%.
Hermann: Innlendir eignamarkaðir afleitir í ár
Hermann Björnsson, forstjóri Sjóvá, segir að afkoma félagsins á öðrum fjórðungi hafi einkennst af erfiðu árferði á verbréfamörkuðum en „afar góðri“ afkomu af vátryggingastarfsemi. Engin stórtjón hafi fallið til og tjónaþróun verið hagfelld.
Hermann segir 87 milljóna tap Sjóvá af fjárfestingum fyrir fjármagnsliði og skatta á öðrum fjórðungi vera undir væntingum en ásættanlegt í ljósi markaðsaðstæðna „þar sem innlendir eignamarkaðir hafa verið afleitir það sem af er ári“.
„Allir eignaflokkar, að undanskildum skráðum – og óskráðum hlutabréfum, skiluðu jákvæðri afkomu á fjórðungnum. Ávöxtun skráðra hlutabréfa var -4,8%, óskráðra hlutabréfa -0,5%, ríkisskuldabréfa 1,2%, annarra skuldabréfa 2,3% og safnsins alls -0,1%.
Í lok annars ársfjórðungs var eignasafn Sjóvá 59 milljarðar króna.