Samkvæmt skýrslu Evrópsku verðbréfamarkaðseftirlitsstofnunarinnar (ESMA) virðast stjórnvaldssektir á íslensk fjármálafyrirtæki vera í sérflokki á Evrópska efnahagssvæðinu.

Í heildina voru lagðar 970 stjórnvaldssektir á fjármálafyrirtæki innan EES-svæðisins fyrir 71 milljón evra á árinu 2023. Þrátt fyrir smæð landsins og fjármálakerfisins greiddu íslensk fjármálafyrirtæki um 11% af heildarsektarfjárhæðum á EES-svæðinu sem fjallað er um í skýrslunni og næsthæstu heildarfjárhæð allra ríkja á eftir Frakklandi.

Íbúafjöldi Íslands er innan við 0,1% af íbúafjölda svæðisins.

Ef undirflokkar málefnasviðs skýrslunnar eru skoðaðir má sjá að íslensk fjármálafyrirtæki greiddu 42,5% af öllum sektum innan Evrópusambandsins fyrir brot á MiFID II tilskipuninni og MiFIR reglugerðinni frá framkvæmdastjórn ESB. MiFID er samheiti yfir evrópskt regluverk um markaði fyrir fjármálagerninga á meðan MiFIR reglugerðin felur í sér víðtækar kröfur um gagnsæi fyrir og eftir viðskipti.

Árið 2023 voru gefnar út 289 stjórnsýslusektir í Evrópu vegna brota á reglugerðunum tveimur og voru flestar sektir í Danmörku (42), síðan á Kýpur (38) og síðan í Búlgaríu (30). Á Íslandi voru sektirnar ekki nema fimm en engu að síður borguðu íslensk fjármálafyrirtæki næstum helming af sektarfjárhæðunum á öllu EES-svæðinu tengdu MiFID II.

Þegar kemur að brotum tengdum MiFID II eða MiFIR var hæsta einstaka sektin á fjármálafyrirtæki samkvæmt skýrslu ESMA, þegar Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands sektaði Íslandsbanka um tæpa 1,2 milljarða vegna brota við undirbúning og framkvæmd bankans í tengslum við útboð Bankasýslu ríkisins á 22,5% eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka.

Jón Daníelsson, prófessor í hagfræði við London School of Economics, segir að þessi stefna eftirlitsstofnana sé skaðleg fyrir íslenskt efnahagslíf og komi í veg fyrir nýsköpun.

Hægt er að lesa viðtal Viðskiptablaðsins við Jón hér.