Úrvalsvísitalan lækkaði um 0,8% í 2,2 milljarða króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Átján félög aðalmarkaðarins lækkuðu í viðskiptum dagsins og þrjú félög hækkuðu.

Mesta breytingin var á hlutabréfaverði Skaga, móðurfélags VÍS, Fossa og Íslenskra verðbréfa, sem féll um 2,9% í tæplega 400 milljónaveltu. Hlutabréfaverð Skaga stendur nú í 20,4 krónum á hlut og er um 5,6% lægra en í byrjun árs.

Skagi birti ársuppgjör eftir lokun Kauphallarinnar í gær. Félagið hagnaðist um tæplega 2,3 milljarða króna árið 2024 samanborið við 1,8 milljarðar árið áður.

Á uppgjörsfundi félagsins fór Haraldur Þórðarson, forstjóri Skaga, yfir möguleg tækifæri fyrir félagið vegna samruna Arion og Íslandsbanka, og neikvæð áhrif á tekjuvöxt VÍS vegna sölu TM til Landsbankans.

Auk Skaga þá lækkuðu hlutabréf Arion, Ölgerðarinnar og Eikar um meira en 1,5% í dag. Sýn var eina félagið sem hækkaði um meira en eitt prósent en gengi félagsins hækkaði um 1,9% í tíu milljóna króna veltu og stendur nú í 21,6 krónum á hlut.