Skagi, móðurfélag VÍS, Fossa og Íslenskra verðbréfa, tapaði 1.353 milljónum króna á fyrsta ársfjórðungi 2025, samanborið við 135 milljóna króna hagnað á sama tímabili í fyrra.

Taprekstur skýrist að stórum hluta af neikvæðum fjárfestingatekjum vegna lækkunar skráðra hlutabréfa. Skagi birti árshlutauppgjör eftir lokun markaða í dag.

Neikvæðar fjárfestingatekjur og fjármagnsliðir drógu afkomu samstæðunnar samanlagt niður um 1.019 milljónir króna. Þar af voru fjárfestingatekjur neikvæðar um 497 milljónir sem Skagi segir koma til að mestu vegna lækkunar skráðra hlutabréfa um 1.063 milljónir.

„Afkoma fjárfestingasafns VÍS litaðist talsvert af erfiðum aðstæðum og miklum sveiflum á eignamörkuðum, sér í lagi vegna verðlækkana á skráðum hlutabréfum á tímabilinu. Virk stýring safnsins skilaði þó árangri umfram viðmið en safnið lækkaði um 1,1% til samanburðar við 1,6% lækkun viðmiðunarvísitölu. Á fjórðungnum var dregið nokkuð úr vægi skráðra hlutabréfa og aukið á vægi skuldabréfa,“ segir Haraldur I. Þórðarson, forstjóri Skaga.

60 milljóna kostnaður við sameiningu

Jafnframt kemur fram að afkoma af fjármálastarfsemi samstæðunnar fyrir skatta hafi verið neikvæð um 34 milljónir á tímabilinu. Það litist að hluta af einskiptiskostnaði upp á ríflega 60 milljónir í tengslum við sameiningu Fossa og Íslenskra verðbréfa annars vegar og SIV og ÍV sjóða hins vegar.

Skagi segir að góður taktur hafi verið áfram í tryggingastarfsemi með 10,9% tekjuvöxt á milli ára. Samsett hlutfall var 100,7% á fjórðungnum og batnaði um 2,9 prósentustig á milli ára. Afkoma af vátryggingasamningum var neikvæð um 51 milljón og batnaði um 192 milljónir milli ára. Bent er á að fyrsti ársfjórðungur sé gjarnan tjónaþungur.