Fjármálatímaritið The Banker, sem er gefið út af The Financial Times, birti í dag grein um íslenska hagkerfið þar sem m.a. er rætt við Ásgeir Jónsson seðlabankastjóra og Magnús Árna Skúlason, stofnanda Reykjavík Economics.

Blaðamaður The Bankar fjallar stuttlega um vinnumarkaðinn og bendir á að aðild að stéttarfélögum er á fáum stöðum jafn mikil innan OECD. Kjaraviðræður hafi því veruleg áhrif á hagkerfið og verðbólgu.

„Það er þensla á vinnumarkaðnum, sem er einn af helstu áhættuþáttunum fram undan,“ segir Ásgeir. „Engu að síður hefur tekist að ná 14 mánaða skammtímasamningum við helstu stéttarfélögin. Það mun gefa Seðlabankanum tíma til að ná verðbólgunni niður og hjálpa okkur að ná verðstöðugleika til lengri tíma,“ bætir hann við og vísar til næstu kjaralotu.

Covid „lán í óláni“ fyrir Ísland

Einnig er fjallað um áherslur hér á landi að ná fram fjölbreyttara atvinnulífi, ekki síst í ljósi sveiflukennds eðlis þriggja helstu útflutningsgreinanna; sjávarútvegsins, áliðnaðarins og ferðaþjónustunnar.

„Covid-19 var lán í óláni fyrir okkur,“ segir Ásgeir. „Það var mikill samdráttur í ferðaþjónustu, sem færði vinnuafl til annarra geira og leiddi til fjárfestinga á öðrum sviðum.“

Magnús Árni segir að nýsköpun sé að mynda fjórðu stoð hagkerfisins og minnist þar á vöxt hér á landi í heilbrigðistækni, lyfjageiranum, þörungaræktun, tölvuleikjaframleiðslu og gagnageymslu. Fjármögnun frá vísisjóðum og stuðningur ríkisins í formi skattfrádráttar vegna rannsóknar og þróunarverkefna hafi stuðlað að vexti íslenskra nýsköpunarfyrirtækja.

Ásgeir hefur áhyggjur af breska hagkerfinu

Hagvöxtur á Íslandi mældist á bilinu 6,6%-8,5% á fyrstu þremur ársfjórðungum 2022. The Banker segir að íslenska hagkerfið gæti þó fundið fyrir mótbyr í ár þar sem hagvöxtur fer minnkandi hjá okkar helstu viðskiptaríkjum.

Lánshæfismatsfyrirtækið Fitch Ratings spái því að hagvöxtur á Íslandi dragist saman og verði um 1,9% í ár. Engu að síður verði hagvöxtur á Íslandi einna mestur meðal Evrópuþjóða.

Samkvæmt gögnum Evrópusambandsins vega aðildarríki Evrópusambandsins 55% af vöruviðskiptum við Ísland. Bandaríkin mynda 8% af vöruviðskiptum við Ísland, Bretland 7,3% og Noregur 6,9%. Ásgeir segist hafa sérstakar áhyggjur af mögulegum áhrifum af veikara hagkerfi og gjaldmiðli Bretlands.

„Bretland er mikilvægur markaður fyrir vörurnar okkar og fjármálaviðskipti. Ísland, auk hinna Norðurlandanna, hefur notið góðs af stöðu London sem fjármálamiðstöð Evrópu,“ segir Ásgeir. „Fyrir vikið höfum við áhyggjur af því að Bretland geti misst frá sér stöðu sína sem lykil fjármálamiðstöð."