Tæp 60% tekna Skýrr koma nú erlendis frá og segir Gestur þá vera í varfærinni útrás, enda hugtakið sem slíkt hálfgert feimnismál í dag. Fyrirtækið er að vinna verkefni í Lichtenstein og Færeyjum, fyrir utan verkefni í Noregi og Svíþjóð sem félagið skilgreinir í dag sem sína heimamarkaði. Gestur tók við stöðu forstjóra Skýrr í nóvember 2009 en hann var áður forstjóri Teymis. Þar áður var hann framkvæmdastjóri hjá Vodafone í nokkur ár og kom þangað frá Margmiðlun sem sameinaðist Vodafone fyrir liðlega áratug.
Sameiningu lokið
Skýrr er í dag níunda stærsta upplýsingatæknifyrirtækið Norðurlanda og samanstendur af móðurfélaginu Skýrr og þremur dótturfélögum, HugAx hér á Íslandi, Kerfi í Svíþjóð og Hands í Noregi. Samtals starfa 1.100 manns hjá samstæðunni, 600 hér á landi, 300 í Svíþjóð og 200 í Noregi. Gestur bendir til samanburðar á að álíka margir starfi hjá Skýrr og við stóriðju á Íslandi, þannig að mikilvægi upplýsingatækni í íslensku atvinnulífi sé óumdeilanleg. Viðskiptavinir Skýrr á íslenskum fyrirtækjamarkaði eru um 10 þúsund, jafnt lítil sem stór fyrirtæki og hefur fyrirtækið um þriðjungs markaðshlutdeild í sölu á tölvubúnaði til almennings. Samstarfsaðilar Skýrr í upplýsingatækni eru nokkur stærstu alþjóðafyrirtækin í greininni, meðal annars Microsoft, Oracle, SAP BusinessObjects, VeriSign, Dell og EMC.
Gestur segir marga spyrja hvernig fyrirtækið hafi farið úr 200 starfsmönnum í 1.100 á svona skömmum tíma. „Við höfum farið gegnum sameiningar og samrunalotur síðustu 18 mánuði og sameinað níu fyrirtæki undir einn hatt, þannig að Skýrr samanstendur í dag af fjölmörgum fyrirtækjum sem áður voru undir hatti Teymis, til dæmis Landsteinum Streng, Kögun, EJS og Eskli." Gestur leggur áherslu á að stærð sé huglæg og mikilvægt sé að viðhalda þeirri vitund innan fyrirtækisins að það sé lítið samanborið við flesta keppinauta þess á norrænum markaði og kappkostað sé að halda í kosti „kúltúr" lítilla fyrirtækja. En hann bendir á að það geti líka komið sér vel að vera stór. Þannig verði vöru-, þekkingar-, og þjónustuframboð mjög þétt og gefi möguleika til að sækja fram á breiðum grunni, bæði hér heima og erlendis. Í stærð felist líka styrkur til að takast á við þróunarverkefni og viðskiptavinir njóti stærðarinnar vegna möguleika félagsins til að ná mun hagstæðari samningum við birgja. „Síðast en ekki síst gefur stærðin fyrirtækinu kjölfestu til að standa af sér brotsjó og efnahagssveiflur."
Vandamálin hverfa ekki
Gestur segir aðallega tvær ástæður liggja að baki þess að sameiningarnar hafi heppnast svo vel. Annars vegar að öll þau fyrirtæki sem sameinuð voru hafi verið í góðum rekstri fyrir og hins vegar að gríðarlegur mannauður sé til staðar í fyrirtækjunum. „Fyrirtækin sem verið var að sameina voru búin að aðlagast breyttu viðskiptaumhverfi, voru búin að hagræða í rekstri, voru með trausta viðskiptavini og höfðu á að skipa mjög flottu og hæfu starfsfólki. Sameiningar eru mjög oft keyrðar í gang þegar vandamál eru komin upp, það er verið að taka einn sem er haltur, annan sem er blindur, þriðja sem er slappur og sameina þá og vonast til þess að út úr því komi einn heill einstaklingur sem er við fulla heilsu. Niðurstaðan er alltaf sú að þegar búið er að sameina fyrirtæki þarf að leysa undirliggjandi vandamál vegna þess að þau eru áfram undirliggjandi en í okkar tilfelli var verið að sameina góð, vel mönnuð og vel stjórnuðum fyrirtækjum."
Gestur segir að strax í upphafi hafi tekist að skapa tiltrú á verkefnið; að sameiningar væru skynsamlegasti kosturinn. Hópurinn hafi í kjölfarið stillt sig inn á það og leyst þau verkefni sem komu upp, sem voru gríðarlega mörg og flókin. „En þegar þú ert með þetta tvennt saman, reynslu og hæfni, eru þér allir vegir færir og þess vegna hefur sameiningarferlið gengið jafn vel og raun ber vitni."
Gildi Skýrr eru ástríða, snerpa og hæfni og fyrirtækið hefur notað þau sem leiðarljós við framtíðaruppbyggingu fyrirtækisins. „Við leggjum mikið upp úr faglegum vinnubrögðum og sjálfbærum vexti. Skýrr er að vaxa mjög hratt, en við reynum eftir megni að taka hvert skref á varfærinn og yfirvegaðan hátt. Í þeim efnum hjálpar vissulega til að hér innanhúss er að safnast saman landsliðið í upplýsingatækni. Þetta fólk nálgast verkefnin með hagsmuni viðskiptavina í fyrirrúmi, enda erum við þjónustufyrirtæki framar öllu öðru."
Tíu þúusnd gestir á viðburði
Gestur leggur mikla áherslu á að innan Skýrr starfi mjög hæft, reynslumikið og duglegt starfsfólk og því þurfi að miðla áfram.
Meðal annars stendur Skýrr fyrir tveimur til þremur morgunverðar- fundum í hverjum mánuði yfir vetrartímann þar sem starfsfólk Skýrr ásamt öðrum sérfræðingum miðlar þekkingu sinni og ræðir um málefni sem tengjast upplýsingatækni og hagnýtingu hennar í atvinnulífinu. Gestur segir þetta gríðarlega mikilvægan vettvang, sem sé vel sóttur, þar sem gestir á hverjum fundi séu 100 til 300 talsins. Flestir sæki þó árlega haustráðstefnu Skýrr sem um 800 manns sóttu í fyrra. „Í fyrra komu samtals um 10.000 manns á viðburði á vegum Skýrr, sem er einstakt í íslensku atvinnulífi og einsdæmi í þekkingariðnaði á Norðurlöndum."
Skapa jákvæða ímynd nörda
Tæknifyrirtæki á Íslandi hafa lengi átt í vandræðum með að fá hæft fólk til starfa og Gestur tekur undir það. Tæknimenntað fólk í landinu sé einfaldlega alltof fátt, of fáir leggi út í tæknimenntun og nýliðun í greininni sé því lítil. Gestur er einn þeirra forstjóra sem tóku nýlega þátt í auglýsingaherferð þar sem skorað var á stúdenta að nema tæknimenntun. „Það vantar alltaf hæft tæknimentað fólk." Þegar fyrirtæki eru í samkeppni um vinnuafl skiptir miklu máli að skapa gott vinnuumhverfi til að laða hæft starfsfólk til sín. Gestur leggur áherslu á að hæft starfsfólk í dag geri kröfur til vinnustaðarins þannig að mikilvægt sé að fyrirtækið sæki skemmtileg og krefjandi verkefni. „Fólk vill starfa í skemmtilegu, lifandi, heilbrigðu og krefjandi umhverfi og það er mín áskorun að skapa þannig vinnustað dag frá degi. Ekki má gleyma því að upplýsingatæknifyrirtæki eru jafnframt í mikilli samkeppni við erlend fyrirtæki og það er mikill missir að hverjum einasta sérfræðingi í þessum geira sem yfirgefur landið."
Skýrr hefur undanfarið unnið í því að skapa jákvæða ímynd nörda og kaus nörd ársins núna í byrjun árs í fyrsta sinn en þetta
framtak kemur til með að vera árlegt. „Um 7.000 manns kusu Hjálmar Snæ Gíslason hjá Data-Market sem nörd ársins þannig að
undirtektirnar voru mjög góðar." Gestur bendir á að tveir af fimm ríkustu mönnum heims séu nördar og að 21. öldin sé öld nördanna, þeir stjórni núna heiminum upp að vissu marki. „Við hjá Skýrr lítum ófeimin á okkur sem nörda því það er jákvætt og merkir í raun ekki annað en að hafa ástríðu fyrir því sem maður er að fást við dag frá degi. Allir þekkja nörda í sínu umhverfi, því nörd er jú ekkert annað en manneskja sem sinnir viðfangsefnum sínum af metnaði og ástríðu, hvort heldur það er í starfi eða leik. Fótboltanördar eru til dæmis afar áberandi núna og hvað er Gilzenegger annað en líkamsræktarnörd!"
Viðtalið í heild má lesa í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.