Ólafur H. Marteinsson, aðstoðarforstjóri Ísfélagsins, hefur verið formaður stjórnar Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) í að verða fimm ár. Hann hefur setið í stjórninni síðustu sex ár og hefur því ekki kost á, samkvæmt samþykktum samtakanna, að sækjast eftir áframhaldandi stjórnarsetu. Alls spannar stjórnarseta Ólafs í SFS og forveranum Landssambandi íslenskra útvegsmanna (LÍÚ)  í rúma tvo áratugi.

Hann segir þetta hafa verið viðburðaríkan tíma. Það sem helst hafi einkennt sjávarútveginn á þessu tímabili séu umfangsmiklar fjárfestingar sem hafi skilað verulegum ávinningi fyrir atvinnugreinina, afleiddar greinar og þjóðarbúið í heild sinni. „Greinin hefur vitaskuld liðið fyrir það að vera sífellt í skotlínu stjórnmálanna en þrátt fyrir það hefur hún tekið stakkaskiptum. Það er varla hægt að segja að sjávarútvegur sé sama atvinnugrein og fyrir nokkrum áratugum síðan.“

Ekki síður hafi fjárfestingarnar leitt til þess að ýmsar hliðargreinar við sjávarútveginn hafi náð eftirtektarverðum árangri. „Þannig er verið að búa til verðmæti úr ýmsum hráefni sem áður var hent. Í dag er verið að nýta þetta hráefni til framleiðslu á lækningavörum, fæðubótarefnum, snyrtivörum, drykkjum og svo mætti lengi telja. Að ógleymdum tæknibransanum sem vaxið hefur samhliða sjávarútveginum. Loks hafa sjávarútvegsfélögin sjálf verið dugleg að fjárfesta í nýsköpun. Fyrir vikið stöndum við uppi með mun öflugri atvinnugrein en áður.“

Samkeppnishæfni í hættu

Nú bendi aftur á móti flest til þess að draga muni úr fjárfestingu í greininni vegna áforma ríkisstjórnarinnar um hækkun veiðigjalda sem koma fram í frumvarpi sem birt var í samráðsgátt stjórnvalda í síðustu viku. Einnig hafa SFS bent á að hækkun veiðigjalda geti að lokum leitt til þess að fiskvinnsla færist úr landi til láglaunalanda.

„Það er ekki þar með sagt að öll fiskvinnsla í landinu leggist af um leið og veiðigjöld verða hækkuð. Sjávarútvegurinn er ekki eins í sveit settur og skemmtiferðaskipin sem geta með skömmum fyrirvara afboðað komu sína ef þeim misbýður stóraukin skattheimta. Við erum með alla þessa vinnslu og búnað sem fjárfest hefur verið í undanfarin ár og áratugi og það verður áfram veiddur fiskur og svo unninn með þessum búnaði. Aftur á móti dregur aukin skattheimta ákveðin kraft úr útgerðarfélögunum og áður en langt um líður munu félögin ekki verða samkeppnishæf í alþjóðlegum samanburði. Á endanum leiðir þetta svo til þess að skatttekjur ríkisins verða lægri en ella,“ segir Ólafur.

Hann ítrekar að vinnslan muni ekki færast úr landi eins og hendi sé veifað en það muni þó ekki heldur gerast á hraða snigilsins. „Fyrirtækin endurnýja ekki vinnslubúnað og aðstöðu heldur fara hægt og bítandi að færa vinnslu afurðanna á samkeppnishæfa markaði. Þegar yfir 90% af hagnaði útgerðarinnar rennur til ríkisins verður ekki fjárfest í endurnýjun á rekstrarfjármunum. Það segir sig sjálft. Ef sjávarútvegsfélögin draga verulega úr fjárfestingum hefur það einnig neikvæð áhrif á afleiddar greinar. Þegar fjárfestingar í endurnýjun, nýsköpun og framförum eru stöðvaðar verður íslenskur sjávarútvegur undir í alþjóðlegri samkeppni.“

Aukin verðmætasköpun í orði en ekki á borði

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins kemur fram að unnið verði að aukinni verðmætasköpun í atvinnulífinu. Ólafur segir morgunljóst að þetta markmið sé bara í orði hjá ríkisstjórninni. „Það sést ágætlega á þeim ákvörðunum sem þau eru að taka með hækkun veiðigjalda og kolefnisgjalda, og með aukningu strandveiða. Þau vita flest öll að þetta eru handabakavinnubrögð en samt er vaðið af stað í að gera þetta.“

Í frumvarpi um hækkun veiðigjalda og í máli Hönnu Katrínar Friðriksson atvinnuvegaráðherra og Daða Más Kristóferssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, á blaðamannafundi var talað um „leiðréttingu veiðigjalda“. Við gerð frumvarpsins hafi komið í ljós að fiskverð í reiknistofni hafi verið vanmetinn. Stærstur hluti viðskipta með veiddan fisk fari frá útgerð til vinnslu sem sé í eigu sömu aðila og séu því um bein viðskipti að ræða. Verðmyndun þessara viðskipta hafi ekki verið í samræmi við verðmyndun á mörkuðum.

„Til þess að bregðast við þessu ójafnvægi verður lögum um veiðigjöld breytt á þann veg að reiknistofn fyrir þorsk og ýsu mun miðast við verð á fiskmörkuðum innanlands. Fyrir uppsjávartegundirnar síld, kolmunna og makríl verður miðað við markaðsverð í Noregi yfir íslensk veiðitímabil,“ segir í tilkynningu ráðuneytanna. Með þessari breytingu megi áætla að veiðigjöld skili allt að 10 milljörðum króna í ríkissjóð til viðbótar við þá 10,2 milljarða sem þegar hafi verið greiddir.

Ólafur segir markmið í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um aukna verðmætasköpun í atvinnulífinu aðeins í orði en ekki á borði.
© BIG (VB MYND/BIG)

Ólafur er hvumsa yfir því að umrædd skattahækkun sé teiknuð upp sem leiðrétting þar sem um leið sé ýjað að því að sjávarútvegsfyrirtækin hafi framið lögbrot um árabil með því að vantelja tekjur. „Það er með hreinum ólíkindum að ráðherrar og þingmenn skuli leyfa sér að tala með þessum hætti. Þau halda því einnig fram að þetta sé ekki skattur heldur auðlindagjald, þrátt fyrir að í greinargerð frumvarpsins komi fram að veiðigjald sé ótvíræður skattur og vísað til greina númer 40 og 77 í stjórnarskránni í því samhengi. Það er verið að slá ryki í augu almennings,“ segir Ólafur og bætir við:

„Það stendur lítið eftir af loforði Kristrúnar Frostadóttur, forsætisráðherra, til fólks í þessari atvinnugrein, sem voru gefin í heimsóknum hennar um land allt í aðdraganda kosninga, um að fiskveiðikerfinu yrði ekki breytt. Það er auðvitað stór breyting á kerfinu þegar andlag veiðigjaldsins miðast við kerfi í Noregi sem er allt öðruvísi uppbyggt en hér á landi. Þarna er verið að skattleggja eplarækt miðað við tekjur af appelsínurækt,“ segir Ólafur og bendir á að norskur sjávarútvegur hafi þróast með allt öðrum hætti en sá íslenski.

„Þar eru t.d. veittir ríkisstyrkir til landsvinnslu, sem ekki er á Íslandi. Auðvitað mótar rekstrarumhverfið landvinnslunnar hvaða verð er borgað fyrir afurðina. Í mínum huga er ótækt að taka verð sem verður til við allt aðrar aðstæður í allt öðru kerfi og láta það verða andlag skattlagningar í íslensku veiðikerfi. Hingað til hefur endanlegt verðmæti afurðanna ráðið skattlagningunni í íslenska kerfinu. Það hefur leitt til þess að við erum að fá hærra verð fyrir þorskinn okkar og ýsuna heldur en t.d. Norðmenn. Hins vegar búa þeir við allt aðrar aðstæður tengdar makrílnum sem er veiddur á öðrum tíma, á öðrum stað og svo seldur inn á aðra markaði. Þetta eru markaðir sem við höfum ekki aðgang að vegna þess að gæði þess hráefnis sem við erum að vinna eru allt önnur.“

Nánar er fallað um málið í sérblaði Viðskiptablaðsins um ársfund SFS. Áskrifendur geta lesið viðtalið í heild hér.