Kristrún Frostadóttir mætti upp í pontu á Alþingi fyrir rúmum klukkutími og ræddi þar aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga á almennum vinnumarkaði. Hún fagnaði ýmsum atriðum úr aðgerðapakkanum en gagnrýndi að ekki væri búið að fjármagna aðgerðirnar sem hljóða upp á tugi milljarða króna.

Kristrún segir að Samfylkingin hefði aldrei kynnt áform um tugmilljarða útgjaldaaukningu án þess að slíkar aðgerðir væru fjármagnaðar. Hún spurði fjármálaráðherra hvort taka þurfi lán til fyrir aðgerðunum eða hvort ráðast þurfi í niðurskurð.

„Við getum ekki annað en gagnrýnt [ófjármagnaðan aðgerðapakka stjórnvalda], ekki bara út frá þensluáhrifum heldur ekki síður ráðrúmi ríkisins til að veita þjónustu þegar fram í sækir. Það er auðvelt að auka bara útgjöldin eins og þessi ríkisstjórn hefur gert en það gilda ákveðin prinsipp þegar kemur að rekstri ríkissjóðs — eða hvað, hæstv. fjármálaráðherra?“

Friður á vinnumarkaði verði á kostnað kerfisins

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir fjármálaráðherra svaraði Kristrúnu að það hafi verið skýrt frá upphafi að aðilar vinnumarkaðarins gerðu ríka kröfu á stjórnvöld um að koma með stórar aðgerðir og mikla fjármuni til þess að hægt væri að ná saman.

„Við erum núna að vinna fjármálaáætlun. Sú vinna er flókin en gengur ágætlega. Við erum með uppfærðar áætlanir sem hjálpa okkur að átta okkur á stöðunni eins og hún er núna, sem hefur breyst frá því fyrir jól. Svo þarf að taka ákvarðanir sem svara því hvernig þessari forgangsröðun er mætt,“ sagði Þórdís.

„Er það gert með því að auka á hallann eingöngu? Nei. Er það gert með því að hækka alls konar skatta á sömu hópa og voru að ná saman í kjaraviðræðum til næstu fjögurra ára? Nei. Er hægt að fara í aðgerðir til að spara í kerfinu? Já, ég lít svo á að við séum með þessari forgangsröðun í þágu fjölskyldna, í þágu fjögurra ára friðar á vinnumarkaði, að taka ákvörðun um að setja það í forgang á kostnað kerfis.“

Þórdís ítrekaði þannig skilaboð sín um að hagræðingaraðgerðir þurfi ekki að vera sársaukafullar fyrir kerfið þar sem gífurleg tækifæri séu til staðar til að fara betur með almennafé. Jafnframt myndi hún ekki leggja til skattahækkun á millitekjuhópa.

Þórdís: Sérðu engin tækifæri til sparnaðar hjá hinu opinbera?

Kristrún fór aftur upp í pontu og sagði jafnaðarfólk hafa talað fyrir mörgum þeim útgjaldatillögum sem koma fram í kjarapakkanum. Ólíkt ríkisstjórninni sé það hins vegar hluti af heildstæðri stefnu Samfylkingarinnar sem mörkuð var í upphafi kjörtímabils en ekki bara stokkið í aðdraganda kjarasamninga og ári fyrir kosningar.

„Ég ætla líka að spyrja í því samhengi hvort hæstv. fjármálaráðherra hefur skoðað tillögur Samfylkingarinnar varðandi fjármögnun, hvort sem það er hækkun fjármagnstekjuskatts, veiðigjalds eða afturköllun á bankaskatti, að hluta til eða öllu leyti. Það er hægt að finna þetta fjármagn.“

Þórdís spurði þá Kristrúnu hvort hún sæi engin tækifæri til að spara hjá hinu opinbera.

„Þær aðhaldsaðgerðir sem farið var í og hæstvirtur þingmaður talar um að því hafi fylgt mikill sársauki — ég get ekki tekið undir að því hafi fylgt mikill sársauki. Mér þykir eðlileg krafa af hálfu fjárveitingavaldsins og stjórnvalda að skoða það á hverjum degi hvort farið er eins vel með annarra manna peninga og kostur er. Svar við því núna er að það eru tækifæri og þess vegna segi ég: Það er sú leið sem við förum og hún þarf ekki að vera sársaukafull.“

Hildur: Skattahækkanir það eina sem Kristrún saknar

Hildur Sverrisdóttir, þingmaður og þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, dró þá ályktun af ræðu Kristrúnar að það eina sem formaður Samfylkingar sakni úr kjarapakkanum séu tillögur um hærri skatta.

„Í pontu Alþingis var Kristrún Frosta að opinbera að það eina sem hún saknar úr kjarapakka ríkisstjórnarinnar eru skattahækkanir. Línur skýrast aldeilis,“ skrifar Hildur á samfélagsmiðlinum X (áður Twitter).