Skattamálum á hendur félögum tengdum Samherja hefur verið að fullu lokið í sátt á milli skattrannsóknarstjóra og Samherja, að því er kemur fram í tilkynningu á heimasíðu útgerðarfélagsins.

Sáttin felur í sér að 60 milljóna króna nettó viðbótarskattgreiðslu Samherja hf., 15 milljóna stjórnvaldssekt Samherja hf. vegna vangoldins tryggingagjalds og 153 milljóna viðbótarskatt Sæbóls fjárfestingarfélags, dótturfélags Samherja Holding ehf., þar sem tekjur dótturfélags Sæbóls voru taldar skattskyldar hér á landi. Við framangreindar fjárhæðir bætast dráttarvextir.

Málalyktirnar felast í endurálagningu Skattsins á félög í samstæðu Samherja vegna rekstraráranna 2012-2018. Rannsóknin tók til bókhalds og skattskila samstæðu Samherja hf. árin 2010-2018 „þar sem öll gögn í rekstri þeirra félaga sem um ræðir voru ítarlega yfirfarin“.

Samhliða hefur embætti héraðssaksóknara fellt niður sakamál á hendur félögunum og starfsfólki þeirra „og staðfest að hvorki stjórnendur né starfsmenn samstæðunnar hafi gerst sekir um refsiverð brot vegna þessa“.

„Fyrir þremur árum voru settar fram mjög alvarlegar ásakanir á hendur okkur um skattsvik og peningaþvætti sem var sagt hlaupa á milljörðum króna. Nú er komið í ljós að ekki stóð steinn yfir steini í þeim ásökunum og skattamálum okkar er nú lokið með niðurfellingu sakamála og nýrri álagningu eins og alvanalegt er í hefðbundnum skattamálum þar sem uppi eru álitamál um túlkun á skattskyldu,“ segir Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja.

Samherji segir að verulegur ágreiningur hafi verið um skattskyldu í framangreindum málum og skoðanir félagsins og Skattsins ólíkar um lagagrundvöll skattskyldunnar. Rannsókn Skattsins hafi leitt leiddi í ljós að gera mætti ráð fyrir að sá háttur sem hafður var á hefði ekki verið fullnægjandi í strangasta lagaskilningi. Líklegt væri að skattskylda hefði myndast að minnsta kosti að einhverju leyti.

Við það hafi svo bæst nýlegur dómur Landsréttar í eðlislíku máli þar sem réttaróvissu sem hér skipti máli var eytt og það félag sem þar átti í hlut dæmt til skattskyldu. Samherji taldi við þessar aðstæður rétt að fallast á túlkun Skattsins og þar með skattskyldu.

„Við þá ákvörðun vó þungt að átta einstaklingar höfðu verið ranglega hafðir fyrir sök og haft réttarstöðu sakborninga um árabil í tengslum við umrædd skattamál. Var ljóst að ef til málaferla kæmi myndu þeir þurfa að sæta því álagi sem slíku fylgir um ókomin ár.

Að mati stjórnenda Samherja hf. var afar mikilvægt að geta leyst úr þeim fjötrum sem slíkri réttarstöðu fylgir fyrir þá einstaklinga sem í hlut eiga. Hér skipti einnig miklu máli að orrahríð opinberra aðila hefur staðið á Samherja hf., samstæðufélögum þess, stjórnendum og starfsmönnum í rúman áratug. Því hefur fylgt mikið álag og inngrip í rekstur Samherja ekki síst vegna þess að fjöldi starfsmanna hefur haft réttarstöðu sakborninga á þeim tíma,“ segir í tilkynningunni.

Samherji dregur saman eftirfarandi niðurstöður málsins:

  • Samherji hf. greiðir viðbótarskatt vegna staðgreiðslu opinberra gjalda og tryggingagjalds af nokkrum sjómönnum á erlendum skipum. Að teknu tilliti til leiðréttinga á tekjuskattsálagningu nemur nettó viðbótarskattgreiðsla Samherja hf. 60 milljónum króna. Á þessu tímabili greiddi félagið 30.116 milljónir króna í skatta og hækkar skattgreiðsla félagsins því um 0,2% á tímabilinu vegna þessa.
  • Samherji hf. greiðir 15 milljónir króna í stjórnvaldssekt til ríkissjóðs vegna vangoldins tryggingagjalds.
  • Sæból fjárfestingafélag ehf. greiðir tæplega 153 milljónir króna í viðbótarskatt. Þar af eru 20% fjárhæðarinnar vegna álags. Skattlagningin kemur til þar sem tekjur dótturfélags Sæbóls erlendis voru taldar skattskyldar hér á landi. Þær tekjur fengust reyndar aldrei greiddar. Um þennan þátt málsins ríkti veruleg réttaróvissa sem skorið var úr með nýlegum dómi Landsréttar í sambærilegu máli. Á því tímabili sem var til rannsóknar greiddi Sæból alls 2.300 milljónir króna í skatta og hækkar skattgreiðsla félagsins því um 6% á tímabilinu.
  • Mál sem voru til rannsóknar hjá héraðssaksóknara hafa verið felld niður og réttarstaða þeirra einstaklinga sem eiga í hlut einnig.