Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir flest lönd innan OECD hafa áttað sig á neikvæðum áhrifum skattlagningar á laun og fjármagn.

Í viðtali í Viðskiptablaðinu er Sigríður Margrét spurð: Hvað um að hækka gjöld á atvinnulífið til þess að ná niður hallanum, það virðist vera hluti af plani nýrrar ríkisstjórnar?

„Ísland er háskattaríki og það er því óvarlegt að hækka skatta enn frekar, háir skattar draga úr samkeppnishæfni landsins og verðmætasköpun til lengri tíma,“ segir Sigríður Margrét. „Því er nauðsynlegt að ráðast í hagræðingu, auka aðhald í útgjöldum hins opinbera og stefna að skattalækkunum frekar en skattahækkunum."

„Fyrirtækjaskattar og skattar á laun og fjármagn eru sérlega skaðlegir þegar kemur að áhrifum á hagvöxt, flest lönd innan OECD hafa áttað sig á neikvæðum áhrifum slíkra skatta og hafa því skattar á fjármagn og fyrirtæki almennt farið lækkandi á undanförnum áratugum.

Við búum nú þegar við séríslenska fyrirtækjaskatta, á fjármálafyrirtæki, sjávarútvegsfyrirtæki, fiskeldisfyrirtæki og ferðaþjónustufyrirtæki, sem allir draga úr samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja og hagvexti.“

Ítarlegt viðtal er við Sigríði Margréti í Viðskiptablaðinu, sem var að koma út. Áskrifendur geta lesið það í heild hér.