Skattgreiðendur hafa frá bankahruninu og fram til dagsins í dag lagt Ríkisútvarpinu til um 100 milljarða króna, á verðlagi ársins 2024, í beinum framlögum úr ríkissjóði.
Þetta kemur fram í svari Loga Einarssonar menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra við fyrirspurn frá Árna Helgasonar þingmanns Sjálfstæðisflokksins.
Árni spurði hver framlög ríkisins til Ríkisútvarpsins hafa verið frá árinu 2007 en heildarupphæðin kemur þó ekki fram í svari ráðherra.
Þar segir engu að síðu að framlög ríkisins námu tæplega 5,9 milljörðum árið 2008 en eftir bankahrunið sama ár lækkuðu þau um ríflega 1 milljarð fram til ársins 2013 eða 18%.
Frá árinu 2014 til ársins 2020 var raunvöxtur framlaga um 2 til 6% á ári en árið 2021 drógust framlögin saman um 10% vegna áhrifa kórónuveirufaraldurs.
Framlag ríkisins nam ríflega 6,1 milljarði kr. árið 2024.
Samanlagt reiknast þetta til um 96,6 milljarðar króna sem skattgreiðendur hafa lagt RÚV til frá hruni.

Samkvæmt ráðherra nema þessi framlög um tvö þriðju hluta af heildartekjum RÚV á hverju ári.
Þessi mikli stuðningur hefur þó lengi verið gagnrýndur, sérstaklega af fulltrúum einkarekinna fjölmiðla sem telja RÚV njóta ósanngjarnrar samkeppnisstöðu.
Ríkisstofnunin fær nefnilega ekki aðeins rífleg framlög frá ríkinu heldur einnig verulegar auglýsingatekjur.

Tekjur af auglýsingum námu um 2,8 milljörðum hrunárið 2008 og samdrátturinn sem hófst seinni part þess árs jókst enn árið eftir þegar tekjur fóru niður um 18% og námu tæplega 2,3 milljörðum.
Tekjur fóru vaxandi næstu ár og námu tekjurnar 3 – 3,2 milljörðum króna á árunum 2012–2013 á föstu verðlagi.
Frá þeim tíma hafa tekjur farið lækkandi og námu þær tæplega 2,6 milljörðum kr. á árinu 2024.