Skatt­greiðendur hafa frá banka­hruninu og fram til dagsins í dag lagt Ríkisút­varpinu til um 100 milljarða króna, á verðlagi ársins 2024, í beinum fram­lögum úr ríkis­sjóði.

Þetta kemur fram í svari Loga Einars­sonar menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra við fyrir­spurn frá Árna Helga­sonar þing­manns Sjálf­stæðis­flokksins.

Árni spurði hver fram­lög ríkisins til Ríkisút­varpsins hafa verið frá árinu 2007 en heildar­upp­hæðin kemur þó ekki fram í svari ráðherra.

Þar segir engu að síðu að fram­lög ríkisins námu tæp­lega 5,9 milljörðum árið 2008 en eftir banka­hrunið sama ár lækkuðu þau um ríf­lega 1 milljarð fram til ársins 2013 eða 18%.

Frá árinu 2014 til ársins 2020 var raun­vöxtur fram­laga um 2 til 6% á ári en árið 2021 drógust fram­lögin saman um 10% vegna áhrifa kórónu­veirufar­aldurs.

Fram­lag ríkisins nam ríf­lega 6,1 milljarði kr. árið 2024.

Saman­lagt reiknast þetta til um 96,6 milljarðar króna sem skatt­greiðendur hafa lagt RÚV til frá hruni.

Sam­kvæmt ráðherra nema þessi fram­lög um tvö þriðju hluta af heildar­tekjum RÚV á hverju ári.

Þessi mikli stuðningur hefur þó lengi verið gagn­rýndur, sér­stak­lega af full­trúum einka­rekinna fjölmiðla sem telja RÚV njóta ósann­gjarnrar sam­keppnis­stöðu.

Ríkis­stofnunin fær nefni­lega ekki aðeins ríf­leg fram­lög frá ríkinu heldur einnig veru­legar aug­lýsinga­tekjur.

Tekjur af aug­lýsingum námu um 2,8 milljörðum hrunárið 2008 og sam­drátturinn sem hófst seinni part þess árs jókst enn árið eftir þegar tekjur fóru niður um 18% og námu tæp­lega 2,3 milljörðum.

Tekjur fóru vaxandi næstu ár og námu tekjurnar 3 – 3,2 milljörðum króna á árunum 2012–2013 á föstu verðlagi.

Frá þeim tíma hafa tekjur farið lækkandi og námu þær tæp­lega 2,6 milljörðum kr. á árinu 2024.