Skattspor iðnaðarins, þ.e. framlag iðnaðarins til samfélagsins í formi skattgreiðslna, er umfangsmikið enda greinin stór hér á landi. Nam heildarskattspor iðnaðar 462 milljörðum króna árið 2022 samkvæmt niðurstöðum Reykjavík Economics.

Skattspor iðnaðarins, þ.e. framlag iðnaðarins til samfélagsins í formi skattgreiðslna, er umfangsmikið enda greinin stór hér á landi. Nam heildarskattspor iðnaðar 462 milljörðum króna árið 2022 samkvæmt niðurstöðum Reykjavík Economics.

Ingólfur Bender.
Ingólfur Bender.

Þetta kemur fram í grein Ingólfs Bender, aðalhagfræðings Samtaka iðnaðarins, sem birtist í sérblaðinu Iðnþing 2024, sem fylgdi Viðskiptablaðinu. Í heild nam skattspor iðnaðar um fjórðungi af heildarskatttekjum hins opinbera á árinu 2022 og tæplega helming af verðmætasköpun iðnaðar það ár.

„Framlag iðnaðarins til lífskjara hér á landi má mæla með ýmsum hætti. Hið stóra skattspor iðnaðarins endurspeglar þá staðreynd að umfang iðnaðar er mikið í íslensku efnahagslífi en iðnaður stendur undir 26% verðmætasköpunar hagkerfisins," segir í grein Ingólfs. „Hefur hlutur greinarinnar í verðmætasköpun hagkerfisins hefur verið að aukast síðustu ár.

Ljóst er að virðiskeðja iðnaðarins hefur mikil og jákvæð áhrif á starfsemi fyrirtækja fyrir utan greinina. Vægi greinarinnar í landsframleiðslu og þar með skatttekjum hins opinbera er því meira en ofangreindar tölur um hlutdeild í landsframleiðslu og skattspor sýna ef óbein áhrif greinarinnar eru tekin með."

Ingólfur segir að greinin standi undir um þriðjungi af heildarveltu allra fyrirtækja hér á landi en í fyrra hafi velta hennar numið 2.066 milljörðum króna.

„Skýrir það stórt skattspor greinarinnar í veltutengdum sköttum. Greiddi greinin í þessu sambandi 248 ma.kr. í útskatt virðisaukaskatts á árinu 2022. Var þröng skilgreint skattspor iðnaðar, þ.e. án virðisaukaskatts, því 213 ma.kr. á því ári."

„Greinin leggur einnig mikið til atvinnusköpunar hér á landi og er í því sambandi skattspor hennar m.t.t. vinnuaflstengdra skattgreiðslna hátt eða 167 ma.kr. árið 2022. Í iðnaði starfa um 51 þúsund sem eru ríflega einn af hverjum fimm starfandi á íslenskum vinnumarkaði. Laun í greininni eru há og yfir meðallaunum í hagkerfinu. Endurspeglar það háa framleiðni vinnuafls í greinum iðnaðar.

Iðnaðurinn er stærsta útflutningsgreinin. Aflaði hún í fyrra 699 mö.kr. í útflutningstekjur eða sem nemur 38% af heildarútflutningstekjum þjóðarbúsins. Útflutningstekjur greinarinnar hafa aukist mikið á síðustu árum en þær fóru í fyrsta sinn yfir 300 ma.kr. árið 2010. Af öllum útflutningsgreinum hagkerfisins er skattspor iðnaðarins stærst," segir í grein Ingólfs.

Greinin birtist í sérblaðinu Iðnþing 2024. Hægt er að lesa hana í heild hér.