Ríkissjóður hefur gefið eftir um það bil 200 milljarða króna í formi sértækra skattaívilnana sem ætlað er að stuðla að tilteknum pólitískum markmiðum. Öllum var þeim komið á fót eða þær endurvaktar á árunum eftir hrun sem tímabundnar aðgerðir með skýr markmið, en hafa síðan reynst einstaklega lífseigar þrátt fyrir að nokkuð hafi fjarað undan upphaflegum hlutverkum þeirra og þar með réttlætingu.
Í dag er vart hægt að lýsa þeim tveimur úrræðum sem heimila skattfrjálsa ráðstöfun séreignarsparnaðar til fasteignakaupa – „fyrstu fasteign“ og hliðstæðu almennu úrræði sem var liður í hinni svokölluðu leiðréttingu – öðruvísi en sem stórfelldri tilfærslu úr viðbótarlífeyrissparnaði þjóðarinnar inn í fasteignir hennar í formi eigin fjár.
Lesendur geta svo spurt sig hvaða áhrif 132 milljarða innspýting – til viðbótar við þá 80 sem komu beint úr ríkissjóði – á innan við áratug er líkleg til að hafa haft á fasteignaverð, sem á sama tímabili hefur hátt í þrefaldast.
Ef við gefum okkur að notendur almenna úrræðisins eigi að meðaltali 20 ár í lífeyristöku, og meðalnotandi fyrstu kaupa úrræðisins 35, og notumst við 3,5% raunávöxtunarviðmið lífeyrissjóðanna, munu þessir 132 milljarðar hafa rýrt tekjur og þar með tekjuskattstofn landsmanna um 300 milljarða króna þegar upp er staðið, á verðlagi dagsins í dag. Að því gefnu að persónuafsláttur lífeyrisþeganna sé fullnýttur annarsstaðar, en þeir séu allir í milliþrepi tekjuskattskerfisins, gerir það 112 milljarða króna sem aldrei berast í ríkiskassann.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaði vikunnar sem kom út í gær, 19. apríl.