Skatturinn hefur birt tilkynningu á heimasíðu sinni vegna umræðu um viðbótarlaun sem starfsmenn embættisins geta unnið sér inn. Í umræddum stofnanasamningum Skattsins og stéttarfélaga innan BHM er ákvæði um að sú fjárhæð sem varið er í viðbótarlaun nemur 2% af launum allra BHM starfsmanna hjá Skattinum.

Skatturinn segir að framkvæmdin taki mið af reglum fjármála- og efnahagsráðuneytisins um greiðslu viðbótarlauna til almennra starfsmanna ríkisins.

Þá er bent á að kerfið, sem byggt hefur verið á síðastliðin níu ár, eigi uppruna sinn í bókun 2 í samkomulagi um framlengingu og breytingar á kjarasamningi BHM, frá 28. maí 2014 við ríkið. Nánari útfærsla hefur átt sér stað í stofnanasamningum Skattsins og viðkomandi stéttarfélaga innan BHM.

Fjórðungur fær viðbótarlaun

Starfseiningar Skattsins eru tíu talsins og á hverju sex mánaða tímabili fá 25% BHM starfsmanna, þ.e. háskólamenntaðra starfsmanna, í hverri þeirra viðbótarlaun. Á hverju matstímabili er fjárhæðin sú sama hjá hverjum og einum.

„Samkvæmt þessu kerfi eru 75% BHM starfsmanna hverju sinni sem hljóta ekki viðbótarlaun,“ segir í tilkynningu Skattsins.

Endurálagning meðal starfsþátta sem horft er til

Skatturinn telur upp eftirfarandi þætti sem koma til skoðunar við mat á frammistöðu starfsmanna.

  1. Tímabundin viðbótarverkefni eða ábyrgð
  2. Sveigjanleiki í vinnufyrirkomulagi og umfangi starfs
  3. Framúrskarandi frammistaða eða afköst
  4. Álag vegna afleysinga vegna mikilla fjarvista annarra

„Mat á frammistöðu starfsmanns byggir þannig á heildarskoðun þessara þátta á viðkomandi tímabili. Það tekur jafnt til allra BHM starfsmanna og til allra starfsþátta hjá stofnuninni, svo sem álagningarvinnu, endurálagningar, endurgreiðslna, innheimtu, hugbúnaðarúrlausna og margskonar þjónustu við viðskiptavini.“