Starfsmenn Skattsins hafa kost á að vinna sér inn sérstaka bónusa samkvæmt stofnanasamningi stofnunarinnar við Kjarafélag viðskipta- og hagfræðinga sem ritað var undir haustið 2021. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu.

Í frétt Morgunblaðsins segir að viðmælendur blaðsins sem þekki til stofnanasamningauppbyggingar telji einstök ákvæði samningsins orka tvímælis, sérstaklega með hvaða hætti samningurinn verðlaunar starfsmenn ef þeir sýna sérstaka eða framúrskarandi frammistöðu við störf sín.

Samkvæmt lögum megi ekki verðlauna opinbera starfsmenn með bónusum eða kaupaukum fyrir að sinna eftirlitshlutverki. „Í viðauka samningsins kemur fram að sú upphæð sem er ætluð til árangurstengdra launa og launatengdra gjalda sem tengjast þeim sé 2% af launum allra BHM-félaga hjá Skattinum. Miðað er við að greiða bónusana út tvisvar á ári,“ segir í frétt Morgunblaðsins.