Stoðir, sem áður hét FL Group, reikna með að skattayfirvöld muni enduráætla skattskuld á félagið upp á allt að 12,9 milljarða króna vegna vangreidds tekju- og virðisaukaskatts á árunum 2006 og 2007. Enduráætlunin byggir á rannsókn skattrannsóknarstjóra á félaginu sem hófst 2008 og lauk í desember 2010.
Málin eru fordæmisgefandi og gætu leitt af sér sambærilegar enduráætlanir á marga aðra aðila sem frestuðu tekjuskattsgreiðslum eða töldu ekki fram virðisaukaskatt á aðkeypta þjónustu erlendra dótturfélaga sinna. Fjallað er um málið í ársreikningi Stoða fyrir 2010 sem Viðskiptablaðið hefur undir höndum.
Júlíus Þorfinnsson, framkvæmdastjóri Stoða, segir of snemmt að álykta um hver endanleg niðurstaða skattayfirvalda verður. Það liggi fyrir að fjöldi sérfræðinga í skattamálum telji niðurstöðu skattrannsóknarstjóra byggja á afar hæpnum forsendum. „Það er ljóst að verði endanleg niðurstaða félaginu í óhag verður því ekki unað og málinu eftir atvikum skotið til yfirskattanefndar eða dómstóla.“
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.