Að óbreyttu mun Samkeppniseftirlitið (SKE) krefjast íhlutunar verði af yfirtöku Regins á Eik en frummat eftirlitsins er að samruni fasteignafélaganna hindri virka samkeppni.

Að óbreyttu mun Samkeppniseftirlitið (SKE) krefjast íhlutunar verði af yfirtöku Regins á Eik en frummat eftirlitsins er að samruni fasteignafélaganna hindri virka samkeppni.

Eik fasteignafélag tilkynnti í gærkvöldi að það hefði borist andmælaskjal frá SKE vegna samrunatilkynningar Regins í tengslum við valfrjálst yfirtökutilboð þess til hluthafa Eikar fasteignafélags.

Frestur fasteignafélaganna til þess að óska sáttaviðræðna, leggja fram mögulegar tillögur að skilyrðum og senda athugasemdir við andmælaskjalið er til 21. febrúar næstkomandi.

Í tilkynningu sem Reginn sendi frá sér í morgun kemur fram að félagið muni eiga viðræður við eftirlitið vegna andmælaskjalsins á næstu dögum.

Samkeppniseftirlitið telur að af samrunaskrá og fyrirliggjandi gögnum verði ekki séð að möguleg hagræðing eða annar ávinningur af samrunanum sé með þeim hætti að hann vegi upp á móti skaðlegum áhrifum samrunans, og að hann muni skila sér til viðskiptamanna samrunaaðila komi samruninn til framkvæmdar.

Þá geti SKE ekki lagt til grundvallar áform sameinaðs fyrirtækis um svokallaða straumlínulögun með sölu fasteigna eftir samrunann „enda virðist um að ræða óskuldbindandi áform á hugmynda- eða undirbúningsstigi, auk þess sem breytingarnar virðist einkum varða atvinnuhúsnæði sem fellur utan þeirra svæða þar sem áhrifa samrunans gætir helst“.

Fasteignafélögin árétta að andmælaskjalið sé ritað í þeim tilgangi að auðvelda samrunaaðilum að nýta andmælarétt sinn samkvæmt stjórnsýslulögum. Þá feli frummat eftirlitsins ekki sem slíkt í sér bindandi stjórnvaldsákvörðun og kann að taka breytingum eftir því sem rannsókninni vindur fram.