Samkeppniseftirlitið tekur samrunaáformum Íslandsbanka og Kviku banka varla fagnandi.

„Betur ef duga skal,“ segir á upplýsingasíðu Samkeppniseftirlitsins frá því í desember um stöðu samkeppnismála á fjármálamarkaði en stóru bankarnir þrír, Íslandsbanki, Arion banki og Landsbankinn, starfa allir á grundvelli sáttar við eftirlitið frá árinu 2017.

„Í fyrri úrlausnum hefur Samkeppniseftirlitið ítrekað komist að þeirri niðurstöðu að sameining stóru bankanna þriggja innbyrðis eða við önnur smærri fjármálafyrirtæki væri til þess fallin að skaða samkeppni með alvarlegum hætti,“ segir í svörum Samkeppniseftirlitsins við spurningum starfshóps um Hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið frá árinu 2018.

Í svörunum er bent á að yfirtaka Íslandsbanka á Byr árið 2011 og Kaupþings og SPRON árið 2008 hafi verið til þess fallin að draga úr samkeppni en hafi verið samþykkt sökum þess að sparisjóðirnir hafi verið á fallandi fæti.

Í svörum eftirlitsins til Hvítbókarnefndarinnar sagði jafnframt að hagræðing við samruna banka væri sýnd veiði en ekki gefin. Rannsóknir gefi ekki einhlítar niðurstöður um að slíkir samrunar skili sér ætíð í aukinni stærðarhagkvæmni neytendum til heilla.

Samrunaaðilar þyrftu að sýna fram á að hagræðingaráhrif séu beintengd fyrirhuguðum samruna en yrðu ekki til með öðrum hætti og sá samruni skili sér til neytenda sem vegi þyngra en áhrif skertrar samkeppni.

Nánar er fjallað um samrunaáform Kviku og Íslandsbanka í Viðskiptablaðinu sem kom út 9. febrúar.