Samkeppniseftirlitið (SKE) hefur orðið við ósk Regins fasteignafélags um að hefja sáttarviðræður vegna valfrjáls yfirtökutilboðs Regins í allt hlutafé Eikar fasteignafélags. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Þann 8. febrúar síðastliðinn tilkynntu Reginn og Eik um að félögunum hefði borist andmælaskjal frá SKE þar sem fram kemur að eftirlitið muni að óbreyttu krefjast íhlutunar verði af yfirtöku Regins á Eik en frummat eftirlitsins er að samruni fasteignafélaganna hindri virka samkeppni.

Reginn óskaði í kjölfarið formlega eftir því við Samkeppniseftirlitið að hefja sáttaviðræður um hugsanleg skilyrði vegna yfirtökutilboðsins.

Tillögur Regins að skilyrðum lúta m.a. að því að sameinað félag Regins og Eikar selji frá sér tilteknar eignir í því skyni að vinna gegn skaðlegum áhrifum sem SKE telur að gætu leitt af viðskiptunum.

Í ljósi yfirstandandi rannsóknar SKE, sem var færð í fasa II, hefur gildistími yfirtökutilboðsins verið framlengdur fimm sinnum. Gildistími tilboðsins rennur út 15. apríl en tímafrestur SKE til rannsóknar á samrunanum hefur verið framlengdur til 5. apríl.

Reginn áréttar í tilkynningunni sem félagið sendi frá sér í dag að tilboðið sé m.a. háð því skilyrði að SKE samþykki viðskiptin eða geri ekki athugasemdir við viðskiptin sem Reginn sættir sig ekki við.