Samkeppniseftirlitið, SKE, hóf fyrr í ár upplýsingaöflun til að greina áhrif óhagstæðra ytri áhrifa á verðþróun á lykilmörkuðum með það í huga að koma auga á mögulega samkeppnisbresti. Samkeppniseftirlitið hefur ráðið Prósent til þess að gera könnun á meðal neytenda matvara í tengslum við rannsóknina.
Í pósti eftirlitsins til einstaklings sem er beðinn um að taka þátt í könnuninni, sem Viðskiptablaðið hefur undir höndum, kemur í ljós að eftirlitið hafi sótt netföng viðskiptavina hjá fyrirtækjum sem eru til skoðunar í rannsókninni.
„Samkvæmt upplýsingakerfi fyrirtækisins Eldum rétt var tölvupóstfang þitt skráð fyrir kaupum á matarpakka á sl. 12 mánuðum,“ segir í póstinum.
„Þessi könnun er send á lista yfir viðskiptavini fyrirtækisins Eldum rétt sem Samkeppniseftirlitið aflaði frá félaginu á grundvelli 19. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005 í þeim tilgangi að framkvæma meðfylgjandi könnun í samræmi við lögbundin verkefni stofnunarinnar. Upplýsingarnar sem eftirlitið aflaði innihalda tölvupóstfang viðskiptavina.“
Eftirlitið segist gæta fyllsta öryggis persónuupplýsinga og beri ábyrgð á því að meðferð og vinnsla upplýsinganna fari að lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
Björgvin Ingi Ólafsson, meðeigandi hjá Deloitte, var greinilega einn þeirra sem var beðinn um að taka þátt í könnuninni. Hann vakti athygli á spurningu í könnuninni um meginástæðu þess að hann hafi keypt samsettan matarpakka af Eldum rétt.
„Svaraði þessari könnun í gær og held að þetta sé ólæsilegasta könnun sem ég hef tekið þátt í,“ segir einn í athugasemdum.
Gott að vita að rannsóknarspurningar Samkeppniseftirlitsins eru meitlaðar. pic.twitter.com/hSGTIblc5y
— Björgvin Ingi Ólafs. (@bjorgvinio) June 28, 2022
Óttast samkeppnislagabrot í skugga verðbólgu
Páll Gunnar Pálsson, forstjóri SKE, sagði við RÚV fyrr í mánuðinum að allar vörur sem skipti máli séu að hækka í verði. Mikilvægt væri því að fylgjast með hvort það leynist samkeppnishindranir sem geta falist í háttsemi fyrirtækja að umgjörð markaðanna sem geta komið fram við mikla verðbólgu.
„Það á ekki að vera auðvelt, ekki heldur við aðstæður sem eru í dag, að fleyta verðhækkunum út í verðlagið til neytenda og viðskiptavina. Fyrsti kostur ætti almennt að vera að hagræða í rekstri. Eigendur fyrirtækjanna verða líka að taka á sig byrðar. Í fákeppnisumhverfi þar sem eru fáir keppinautar, þegar umræðan er búin að vera jafn mikil og hún er búin að vera um verðhækkanir, þá er alveg hætta á að það verði smitáhrif, að það skapist stemning til þess að hækka verð, og þá er gríðarlega mikilvægt að vera á varðbergi,“ sagði Páll Gunnar við RÚV.
Í tilkynningu á vef SKE í apríl kom fram að gagnaöflunin sneri fyrst um sinn að þróun framlegðar á dagvörumarkaði, eldsneytismarkaði og sölu byggingarefnis.