Sam­keppnis­eftir­litið hefur samþykkt sam­runa fjár­festingar­sjóðsins SÍA IV slhf. og Stefnis hf. við Inter­net á Ís­landi ehf. (ISNIC) án frekari íhlutunar.

Jafn­framt hefur eftir­litið samþykkt breytingar á kaup­samningi þar sem sam­keppnis­bann í garð fyrrum eig­enda ISNIC var stytt úr fimm árum í tvö ár.

Sam­runinn felur í sér að SÍA IV eignast 74% hlut í ISNIC, sem sér um skráningu ís­lenska lénsins.is.

Áður en sam­runinn var samþykktur lagði Sam­keppnis­eftir­litið mat á mögu­legar sam­keppnis­hömlur í kaup­samningnum og gerði at­huga­semdir við sam­keppnis­bann sem átti að gilda í fimm ár fyrir þrjá fyrr­verandi hlut­hafa og stjórn­endur ISNIC.

Að mati eftir­litsins var bannið um­fram það sem talist getur lög­mætt sam­kvæmt sam­keppnis­reglum og gæti haft neikvæð áhrif á sam­keppni á markaðnum.

Sam­keppnis­eftir­litið til­kynnti sam­runa­aðilum um þetta mat sitt í bréfi þann 13. febrúar og lagði áherslu á að viðbótar­tak­markanir í kaup­samningnum gengju lengra en eðli­legt gæti talist.

Eftir­litið byggði á leiðbeiningum fram­kvæmda­stjórnar Evrópu­sam­bandsins og er­lendum dóma­­, sem al­mennt telja tveggja ára sam­keppnis­bann hæfi­legt við aðstæður sem þessar.

Í kjölfar þessa sam­tals samþykktu Stefnir og SÍA IV að stytta bannið í tvö ár frá upp­gjörs­degi.

Með þessari breytingu taldi Sam­keppnis­eftir­litið að ekki væri þörf á frekari af­skiptum af sam­runanum og lauk því málinu á fyrsta fasa rannsóknarinnar.

Eftir at­hugun á áhrifum sam­runans á sam­keppni komst Sam­keppnis­eftir­litið að þeirri niður­stöðu að sam­runinn myndi ekki hafa skað­leg áhrif á markaðsaðstæður.

ISNIC hefur sterka stöðu á markaði fyrir lands­höfuðlén, en sú staða er ekki til komin vegna þessa sam­runa. Þá höfðu ís­lenskir Inter­netþjónustu­veit­endur og Neyt­enda­samtökin ekki gert at­huga­semdir við sam­runann í um­sögnum sínum, sem styrkti mat eftir­litsins á að ekki væri til­efni til íhlutunar.