Samkeppniseftirlitið (SKE) hefur sent Kaupfélag Skagfirðinga (KS) og Kjarnafæði Norðlenska (KN) bréf vegna uppsagnar á 23 af 28 starfsmönnum sláturhúss SAH Afurða á Blönduósi sem er í eigu KN.
Eftirlitið minnir á að það hafi leiðbeint afurðastöðva um að stöðva aðgerðir sem tengdust samrunum afurðastöðva í ljósi dóms Héraðsdóms Reykjavíkur í nóvember um að fella úr gildi breytingar á búvörulögum.
Í bréfinu áréttar SKE fyrri skilaboð sín um að til skoðunar geti komið hvort kaup KS á KN hafi samræmst gildandi lögum.
„Af sömu ástæðum geti á síðari stigum komið til athugunar hvort ráðstafanir í rekstri félaganna feli í sér brot á samkeppnislögum eða ákvörðunum Samkeppniseftirlitsins. Uppsagnir á starfsfólki geta verið liður í framkvæmd samruna,“ segir í tilkynningu á vef SKE.
Samkeppniseftirlitið ritaði í nóvember sl. kjötafurðastöðvum og samtökum þeirra vegna dómsins, þar sem því var m.a. beint til þeirra að stöðva þegar í stað hvers konar aðgerðir eða háttsemi sem farið gætu gegn samkeppnislögum og stofnast hefur til á grundvelli undanþáguheimilda frá vorinu 2024.
Í tilkynningu SKE er bent á að þegar héraðsdómur féll hafði samruni Kaupfélags Skagfirðinga á eignarhlutum í Kjarnafæði Norðlenska átt sér stað, en starfsemi SAH afurða á Blönduósi er í eigu síðarnefnda félagsins.
Hæstiréttur Íslands varð í desember við beiðni SKE um áfrýjunarleyfi og hefur eftirlitið áfrýjað dómi héraðsdóms til réttarins. Ákvörðun um frekari athuganir vegna framangreinds ráðast m.a. af niðurstöðu Hæstaréttar.