Skel fjárfestingafélag segist enga ástæðu hafa til að ætla að brotið hafi verið gegn samkeppnislögum í starfsemi Lyfjavals.

„Framvinda málsins er nú alfarið í höndum ESA,“ segir í tilkynningu Skeljar til Kauphallarinnar vegna þriðja ársfjórðungs þar sem fjallað er um málið.

Um miðjan mánuðinn gerði eftirlitsstofnun EFTA, ESA, fyrirvaralausa húsleit hjá Skel fjárfestingafélagi, með aðstoð frá starfsfólki Samkeppniseftirlitsins, á grundvelli ákvörðunar ESA um athugun á starfsemi Lyfjavals, dótturfélags Heimkaupa sem er í 81% eigu Skeljar. Þetta var í fyrsta sinn sem slík að­gerð var fram­kvæmd á Ís­landi.

ESA sagðist hafa grunsemdir um að brotið kunni að hafa verið gegn samkeppnisreglum EES samningsins. Skel upplýsti daginn sem húsleitin fór fram að málið snúi m.a. að viðskiptum þegar Lyfjaval seldi verslunarhúsnæði í Mjódd í eigu félagsins til Lyf og heilsu með samningi 26. apríl 2022.

Í tilkynningu sem Skel sendi frá sér í dag kemur fram að sú háttsemi sem ákvörðun ESA nr. 91392 tekur til séu meintir samkeppnishamlandi samningar milli Lyfjavals og samkeppnisaðila félagsins.

Benda á opnun apóteks í kílómetra fjarlægð frá Mjóddinni

Nánar tiltekið séu grunsemdir um að þessir samkeppnisaðilar, Lyfjaval annars vegar og Lyf og heilsa hins vegar, hafi útilokað beina samkeppni sem var fyrir hendi milli hefðbundinna apóteka þeirra, en ESA byggir á því að apótekum hérlendis megi skipta í hefðbundin apótek og bílaapótek.

Framangreind markaðsskipting gæti þannig m.a. hafa átt sér stað með (bein tilvitnun í ákvörðun ESA):

  • a) „eignaskiptasamningi, dags 26. apríl 2022, milli Lyfja og heilsu og Lyfjavals varðandi tiltekin hefðbundin apótek aðilanna sem starfrækt voru og síðar lokað í Mjóddinni og Glæsibæ;
  • b) samhæfingu um framkvæmd á nýrri stefnu Lyfjavals/SKEL um bílapótek; og
  • c) takmörkun á getu Lyfja og heilsu til að opna bílaapótek og takmörkun á getu Lyfjavals til að opna hefðbundin apótek.“

Skel fer yfir þetta lið fyrir lið. Hvað lið (a) varðar þá segist Skel hafa talið málinu lokið með úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála nr. 1/2023 sem birtur var þann 9. ágúst 2023 ásamt tilkynningu á heimasíðu Samkeppniseftirlitsins.

Varðandi lið (b) þá bendir Skel á að félagið hafi opinberlega og á afkomufundum félagsins gert grein fyrir þeirri hugmyndafræði sem rekstur Lyfjavals hefur verið byggður upp á. Vísar félagið sérstaklega til þeirra krafna sem eru gerðar í reglugerð nr. 1340/2022 um lyfsöluleyfi og lyfjabúðir, sem tók gildi 15. nóvember 2022.

Varðandi lið (c) þá segist Skel ekki hafa beitt nokkrum áhrifum á önnur fyrirtæki til að takmarka getu þriðju aðila til að opna bílaapótek eða takmarkað getu Lyfjavals á að opna önnur apótek.

„Hið rétta er að frá því að viðskipti sem úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála nr. 1/2023 fjallar um hefur félagið opnað þrjú apótek, þ.m.t. eitt í Suðurfelli sem er í 1,2 km. fjarlægð frá Mjódd.“

Hafa útskýrt málið fyrir helstu lánveitendum

Skel áætlar að markaðshlutdeild Lyfjavals á lyfjamarkaði sé í kringum 10%. Þá segir fjárfestingarfélagið að eigin innflutningur Lyfjavals hafi verið hverfandi og snert aðallega á eftirfarandi vöruflokkum, (i) covid próf, (ii) strimlar fyrir sykursjúka og (iii) rafhlöður fyrir heyrnartæki. Lyfjaval hafi ekki sinnt útflutningi.

„Skel og Lyfjaval aðstoðaði starfsfólk ESA við athugun málsins og afhenti öll umbeðin gögn. Þá hefur Skel átt upplýsingafundi með helstu lánveitendum félagsins eða dótturfélaga til að skýra frá athugun ESA.“