Skel fjárfestingarfélag hagnaðist um 6.754 milljónir króna árið 2024 samanborið við 5.410 milljónir árið 2023. Arðsemi eiginfjár nam 18,3%. Eignir félagsins námu 60,6 milljörðum í lok síðasta árs og eigið fé var um 43,7 milljarðar.
Stjórn félagsins leggur til að greiddur verði út arður til hluthafa á árinu 2025 vegna rekstrarársins 2024 að fjárhæð 6 milljarðar króna sem samsvarar 3,19 krónur á hlut.
Í tilkynningu til Kauphallarinnar kemur fram að stjórnin muni leggja til við hluthafafund að arður verði greiddur út í tveimur greiðslum, að fjárhæð 3 milljarðar króna í hvort skipti.
Gangvirðisbreytingar af óskráðum eignum Skeljar voru jákvæðar um 5,4 milljarða króna. Þar munaði helst um að 63,4% hlutur Skeljar í Styrkási var færður upp um tæplega 3,3 milljarða króna og er nú metinn á 13 milljarða í bókum Skeljar.
Orkan IS ehf. var fært upp um 1,5 milljarða króna og er nú metið á 10,7 milljarða króna.
Gangvirðisbreytingar af skráðum eignum Skeljar, sem innihalda 15,3% hlut í fasteignafélaginu Kaldalóni og 8,2% hlut í Skaga, móðurfélagi VÍS og Fossa fjárfestingarbanka, var jákvæð um 2.145 milljarða króna.
Markaðsvirði skráðra eigna Skeljar námu 9,6 milljörðum króna í árslok eða um 16% af eignum fjárfestingarfélagsins. Til lengri tíma stefnir félagið að því að 50% eigna félagsins séu á skráðum markaði.

„Afkoma Skeljar á árinu 2024 var góð þrátt fyrir áskoranir á fyrri helming ársins. Afkoma og framþróun eigna Skeljar var í flestum tilfellum yfir áætlunum enda byggir eignasafn Skeljar á sterkum grunni og er vel dreift,” segir Ásgeir Helgi Reykfjörð Gylfason, forstjóri Skeljar.
Hann nefnir m.a. að félagið hafi ákveðið að auka hlutdeild erlendra eigna úr 3% í allt að 30% af eignasafninu og unnið hafi verið að kortlagningu fjárfestingatækifæra í Evrópu. Skel í samstarfi við erlenda aðila keypti verslunarkeðjuna Inno í Belgíu síðasta sumar.
Ásgeir segir einnig mikilvægt að fylgja eftir fyrirhugaðri uppbyggingu í innviðum hér á landi með alhliða þjónustu við innlend fyrirtæki. Jafnframt verður áhersla á að finna öfluga samstarfsaðila til þátttöku í erlendum fjárfestingaverkefnum.
