Skel fjárfestingarfélag hagnaðist um 17,5 milljarða króna á árinu 2022, samanborið við 6,9 milljarða árið 2021. Arðsemi eigin fjár, á ársgrundvelli, var 110,6% samanborið við 47,3% á árinu 2021. Aukninguna má fyrst og fremst rekja til hagnaðar vegna uppfærðs verðmats á óskráðum fjárfestingareignum félagsins sem nemur samtals 9,8 milljörðum króna.
Stjórn Skeljar mun leggja til á aðalfundi félagsins þann 9. mars næstkomandi að greiddur verði út arður til hluthafa vegna rekstrarársins 2022 að fjárhæð 600 milljónir króna að því er kemur fram í ársuppgjöri sem félagið birti í gærkvöldi.
Fjárfestingatekjur Skeljar í fyrra námu 12,6 milljörðum og þar af námu gangvirðisbreytingar fjáreigna 12,4 milljörðum. Rekstrargjöld námu 149 milljónum.
Heildareignir í lok tímabilsins námu 38,5 milljörðum. Þar af voru óskráðar eignir 61,9%, skráðar eignir 12,8% og reiðufé og ríkisskuldabréf 17,8%. Eigið fé Skeljar í árslok nam 33,4 milljörðum króna og var eiginfjárhlutfall 86,2%.
Í afkomutilkynningu Skeljar er minnst á sölu félagsins á 48,3% hlut í Orkufelaginu, móðurfélagi færeyska orku- og olíufyrirtækisins Magns fyrir tæplega 3 milljarða króna. Salan er sögð liður í yfirlýstri stefnu Skeljar að draga úr vægi jarðefnaeldsneytissölu í eignasafninu. Árið 2019 var vægi jarðefnaeldsneytis í eignasafni 96% en nú sé það um 49%.