Fjárfestingafélagið Skel hefur ásamt öðrum fjárfestum fest kaup á stærstu verslunarkeðju Belgíu. Félag í jafnri eigu Skeljar og Axcent Scandinavia AB sem á og rekur sænska verslunarfélagið Åhléns hefur fest kaup á belgíska verslunarfélaginu Inno sem rekur 16 stórverslanir í smásölu í öllum helstu borgum landsins.
Fjárfesting Skeljar í verkefninu nemur um 3% af heildareignum fjárfestingarfélagsins.
Inno er eina verslunarkeðja sinnar tegundar í Belgíu og rekur hún sögu sína aftur til ársins 1897. Á annað þúsund manns starfa hjá félaginu.
Velta félagsins á starfsárinu 2023 / 2024 var 313,7 milljónir evra og nam EBITDA hagnaðurhlutfallið 3%.
Liður í útrásaráformum
Í fréttatilkynningu um kaupin er haft eftir Ásgeiri Reykfjörð Gylfasyni forstjóra Skel að Inno hafi sérstöðu í belgískri smásölu og að kaupin séu liður að auka vægi erlendra eigna í eignasafni Skeljar en stefnt er að því að þær nemi allt að 30% af safninu.
Þá er haft eftir Ásgeiri Reykfjörð:
„Stjórnendur félagsins hafa lagt fram metnaðarfull áform um vöxt sem Skel mun styðja við. Skel býr að þekkingu og reynslu á sviði verslunar og smásölu og er stór hluti eignasafns félagsins í þeim rekstri. Þá er ánægjulegt að kaupin á Inno marka upphaf að samstarfi við eigendur Åhléns sem búa að mikilli reynslu og hafa náð eftirtektarverðum árangri með sambærilegar verslanir í Svíþjóð. Þeir hafa einnig sýnt mikinn metnað til takast á við tækifæri í verslun sem ný tækni og samfélagsbreytingar bjóða upp á.“