Fjárfestingafélagið Skel keypti í gær 10% hlut í fjarskipta- og fjölmiðlafyrirtækinu Sýn í gær samkvæmt flöggunartilkynningu.
Skel, sem er í meirihlutaeigu Strengs, keypti 25 milljón hluti í fjarskiptafélaginu. Jón Ásgeir Jóhannesson er stjórnarformaður Strengs og Skeljar. Hann og eiginkona hans Ingibjörg Pálmadóttir eru meðal stærstu eigenda Strengs.
Jón Ásgeir og Ingibjörg áttu um árabil 365 miðla, sem rak Stöð 2, Vísi, Bylgjuna og gaf út Fréttablaðið. Þau seldu 365 miðla til Sýnar árið 2017 og síðar Torg, útgáfufélag Fréttablaðsins, til Helga Magnússonar.
Líkt og Viðskiptablaðið greindi frá í dag seldi Lífeyrissjóður verzlunarmanna (LIVE) allan hlut sinn í félaginu í gær en lífeyrissjóðurinn átti um 14 milljón hluti í Sýn.
Gengi Sýnar hefur rokið upp í dag og hækkað um tæp 18% í 55 milljón króna viðskiptum. Gengi Sýnar stendur í 27,8 krónum þegar þetta er skrifað en gengið í viðskiptum var 22,4 krónur.
Sé tekið mið af því var heildarkaupverð hlutanna 560 milljónir króna.
Hér að neðan má sjá tuttugu stærstu hluthafa Sýnar í byrjun marsmánaðar en samkvæmt listanum verður Skel þriðji stærsti hluthafi félagsins. LIVE fellur út af listanum eftir að hafa losað um alla sína hluti.