Fjár­festingafélagið Skel keypti í gær 10% hlut í fjar­skipta- og fjölmiðla­fyrir­tækinu Sýn í gær sam­kvæmt flöggunar­til­kynningu.

Skel, sem er í meiri­hluta­eigu Strengs, keypti 25 milljón hluti í fjar­skipta­félaginu. Jón Ásgeir Jóhannesson er stjórnarformaður Strengs og Skeljar. Hann og eiginkona hans Ingibjörg Pálmadóttir eru meðal stærstu eigenda Strengs.

Jón Ás­geir og Ingi­björg áttu um ára­bil 365 miðla, sem rak Stöð 2, Vísi, Bylgjuna og gaf út Frétta­blaðið. Þau seldu 365 miðla til Sýnar árið 2017 og síðar Torg, út­gáfu­félag Frétta­blaðsins, til Helga Magnús­sonar.

Líkt og Við­skipta­blaðið greindi frá í dag seldi Lífeyrissjóður verzlunarmanna (LIVE) allan hlut sinn í félaginu í gær en líf­eyris­sjóðurinn átti um 14 milljón hluti í Sýn.

Gengi Sýnar hefur rokið upp í dag og hækkað um tæp 18% í 55 milljón króna við­skiptum. Gengi Sýnar stendur í 27,8 krónum þegar þetta er skrifað en gengið í við­skiptum var 22,4 krónur.

Sé tekið mið af því var heildarkaupverð hlutanna 560 milljónir króna.

Hér að neðan má sjá tuttugu stærstu hluthafa Sýnar í byrjun marsmánaðar en samkvæmt listanum verður Skel þriðji stærsti hluthafi félagsins. LIVE fellur út af listanum eftir að hafa losað um alla sína hluti.