Skel fjárfestingarfélag keypti 200 milljónir hluta, eða um 1,8% eignarhlut, í fasteignafélaginu Kaldalóni í dag fyrir 332 milljónir króna. Verð á hlut var 1,66 krónur, samkvæmt tilkynningu til Kauphallarinnar.

Skel er stærsti hluthafi Kaldalóns og á nú 1,6 milljarða hluta, eða um 14,5% hlut, í fasteignafélaginu sem er um 2,7 milljarðar króna að markaðsvirði.

Ásgeir Helgi Reykfjörð Gylfason, forstjóri Skeljar, er stjórnarformaður Kaldalóns. Magnús Ingi Einarsson, fjármálastjóri Skeljar, situr einnig í stjórn fasteignafélagsins.

Kaldalón, sem er skráð á First North-markaðinn, birti ársuppgjör eftir lokun Kauphallarinnar á fimmtudaginn. Fasteignafélagið hagnaðist um tæplega 2,1 milljarð króna árið 2022, samanborið við 1,3 milljarða árið áður. Fasteignir í eigu Kaldalóns rúmlega tvöfölduðust í fermetrum talið.