Fjár­festingafélagið Skel leiddi hækkanir á aðal­markaði í dag er gengi félagsins fór upp um tæp 5% í lítilli veltu.

Dagsloka­gengi Skeljar var 17,3 krónur og hefur gengi félagsins nú hækkað um rúm 13% á árinu.

Um tíu­leytið í morgun var greint frá því að Styrkás hf., félag í 63,4% eigu Skeljar, hefði undir­ritað í dag sam­komu­lag um helstu skilmála kaup­samnings vegna kaupa á 100% hluta­fjár í Hringrás ehf.

Í sam­komu­laginu er gert ráð fyrir því að heildar­virði (e. enterprise valu­e) Hringrásar sé 6,3 milljarðar en heildar­virði geti orðið allt að 6,5 milljarðar ef árangur­sviðmiðum er náð.

Áætlaður hagnaður Hringrásar fyrir af­skriftir, skatta og fjár­magns­liði er 244 milljónir árið 2024.

Bók­fært virði fasta­fjár­muna Hringrásar að loknum fjár­festingum nemur 6,2 til 6,4 milljörðum og eigið fé félagsins er 2,3 milljarðar.

Hluta­bréfa­verð Amaroq hækkaði einnig í við­skiptum dagsins og fór gengi málm­leitarfélagsins upp um rúm 2%.

Dagsloka­gengi Amaroq var 154,5 krónur og hefur gengið aldrei verið hærra. Félagið greindi nýverið frá fyrstu gull­fram­leiðslunni og sótti í kjölfarið 4,8 milljarða í hluta­fjárút­boði.

Flug­félögin Play og Icelandair hækkuðu einnig í við­skiptum dagsins. Gengi Play fór upp um 2% í ör­við­skiptum. Gengi Icelandair hækkaði einnig um 2% í 215 milljón króna veltu.

Gengi Íslandsbanka leiddi lækkanir er gengi bankans fór niðru um rúmt 1% í 173 milljón króna viðskiptum. Dagslokagengi Íslandsbanka var 120,5 krónur.

Úr­vals­vísi­talan lækkaði um 0,18% og var heildar­velta á markaði 3,9 milljarðar.